Ólafur Pétur Edvardsson fæddist í Reykjavík 1. mars 1967. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 9. mars 2014. Ólafur Pétur var sonur hjónanna Guðrúnar Albertsdóttur, fæddrar 13. janúar 1947, dáinnar 23. mars 1994 og Edvards Péturs Ólafssonar, fædds 22. janúar 1945. Edvard kvæntist Pálínu Oswald, fæddri 25. júlí 1944, sem gekk Ólafi í móðurstað. Bræður Ólafs Péturs eru 1. Viktor Gunnar Edvardsson, fæddur 12. október 1970, kvæntur Ingunni Mjöll Birgisdóttur, fæddri 17. október 1970. Dætur þeirra eru Björg Sóley, fædd 8. október 1997, Edda Lilja, fædd 20. mars 2004 og Katla Guðrún, fædd 5. maí 2009. 2. Björn Ingi Edvardsson, fæddur 5. febrúar 1976, sambýliskona Hildur Sigurðardóttir, fædd 23. maí 1979. Sonur þeirra er Ísak Helgi, fæddur 22. mars 2007. Ólafur Pétur átti fyrst heima á Háaleitisbraut 105 og flutti síðan 1970 í Dvergabakka 32 og þaðan fluttist hann á vistheimilið að Kópavogsbraut 5-7 þar sem hann dvaldi í góðu yfirlæti alla tíð síðan.

Jarðarför Ólafs fór fram í kyrrþey frá Grafarvogskirkju þann 19. mars 2014.

Við viljum minnast bróður okkar Ólafs Péturs í fáeinum orðum. Óli Pétur, eins og hann var alltaf kallaður, var elstur okkar bræðra þó ekki hafi hann náð háum aldri. Fráfall hans kom okkur í opna skjöldu enda hafði hann ávallt verið við góða heilsu ef frá eru skilin hans fyrstu ár. Það er einnig undarleg tilviljun að dánardag hans ber upp nánast tveimur áratugum eftir að móðir okkar, Guðrún deyr. Við erum vissir um að hún taki vel á móti honum hvar sem þau eru niðurkomin núna.

Óli Pétur var fatlaður alveg frá fæðingu, og vegna fötlunar sinnar bjó hann ekki á heimili okkar bræðra frá fimm ára aldri. Okkar fyrstu minningar af Óla Pétri eru því úr reglulegum heimsóknum fjölskyldunnar til hans. Iðulega fórum við með foreldrum okkar einu sinni í viku til hans og oft var farið í bíltúr um bæinn í kjölfarið sem Óli Pétur var hinn ánægðasti með. Þetta voru ávallt skemmtilegar heimsóknir þar sem við bræður höfðum mikil leiktækifæri ýmist innan- eða utandyra eftir veðri. Margt var brallað, og sjálfsagt við misgóðar undirtektir annars heimilisfólks. Þessar reglulegu heimsóknir héldust alveg fram á unglingsárin hjá okkur bræðrum en þá fóru vinir og áhugamál að toga meira í okkur þannig að umgengni okkar minnkaði en foreldrar okkar pössuðu þó upp á að hún héldist við. Óli Pétur kom einnig alltaf í heimsókn á þessum árum til okkar á afmælum og síðar á aðra stórviðburði okkar bræðra svo sem fermingar, útskriftir, jarðarfarir, skírnir og giftingar. Ein heimsókn var þó alltaf heilög en það var á aðfangadag, þá safnaðist stórfjölskylda Óla ávallt saman með honum um miðjan dag og samfagnaði jólunum, þessi hefð hefur haldist allar götur síðan og það verður skrýtið að fara ekki í heimsókn til hans um næstu jól.

Þótt Óli Pétur ætti erfitt með að tjá sig og sínar hugsanir þá fór þó aldrei á milli mála hverjar hans tilfinningar voru svo sem gleði, reiði, undrun og jafnvel sorg og við fjölskyldan höfum alltaf verið viss um að hans hugsun væri skýrari en hægt væri að sjá sökum þess líkama sem hann er nú frjáls úr. Þetta hafa börn okkar bræðra líka upplifað og séð hve mikla undrun, spennu og gleði nærvera þeirra hafði á hann. Óli Pétur var undantekningarlítið í góðu skapi þegar við hittumst, hlæjandi og glaður og munum við minnast þess eiginleika hans sérstaklega. og um leið og við kveðjum hann í hinsta sinn, munum við reyna að hafa viðhorf hans til lífsins til eftirbreytni.

Þínir bræður.

Viktor Gunnar og Björn Ingi.

Falleg stjarna hefur fæðst á himni, þetta er stjarnan hans Óla Péturs eins og hann var kallaður. Ég hitti fyrst Óla P. fyrir nær 20 árum þegar ég kynntist föður hans sem nú kveður son sinn. Ég, eins allir sem kynntust Óla P., féll fyrir honum, þegar hann brosti var eins og kveikt væri á ljósi. Fólk sem hafði unnið á vistheimilinu vissu hver Óli P. var, en þar hafði hann dvalið frá 5 ára aldri við góða umönnun.

Óli P. elskaði músík og á jólaböllum og öðrum skemmtunum var Óli P. í essinu sínu.Stelpurnar snéru honum í stólnum og hann hristist af kátínu. Margar ferðir voru farnar út á deild og voru amma og afi mjög dugleg að heimsækja hann á meðan heilsan leyfði en nú horfir afi á eftir nafna sínum fara til móður sinnar og ömmu sem taka á móti Óla sínum innan um stjörnurnar. Hvíldu í guðs friði. Þín vinkona

Pálína.

Ólafur Pétur Edvardsson fæddist í Reykjavík þann 1. mars 1967 og var því nýorðinn 47 ára er hann lést. Hann bjó fyrstu fimm ár ævi sinnar í Háleitishverfinu og Breiðholtinu en 1972 flutti hann inn á Kópavogshæli og bjó þar til dauðadags. Ólafur Pétur fæddist mikið fatlaður og því var það mikil gæfa að hann skyldi eignast jafngott heimili og Kópavogshæli reyndist honum í gegnum lífið. Frábært starfsfólk alla tíð sem lagði sig allt fram um að láta Óla Pétri líða sem best. Miklar framfarir urðu í allri meðferð og fyrir 25-30 árum komu lyf sem algjörlega náðu að stoppa krampaköst hjá Óla Pétri og eftir það má segja að líf hans hafi einkennst af stöðugleika og almennt bjó hann við gott heilsufar eftir það. Foreldrar Óla Péturs voru Edvard Pétur Ólafsson, bróðir okkar, og Guðrún Albertsdóttir, eða Gunna eins og hún var alltaf kölluð. Gunna lést langt fyrir aldur fram fyrir um 20 árum. Þau hjónin voru afar dugleg við að sinna Óla Pétri og oft var farið í bíltúr og þá gjarnan til afa og ömmu í Grundargerði. Reyndar var Óli Pétur ekkert alltaf ánægður með að „hangsa“ þar of lengi því hann vildi meiri bíltúr. Eftir að Gunna lést þá kynntist Eddi bróðir henni Pálínu og voru þau ötul við að sinna og heimsækja Óla Pétur svo ekki skorti á það.

Þrátt fyrir sína miklu fötlun fann maður að Óla Pétri leið dags daglega ágætlega og það var ávallt gaman að koma í heimsókn til Óla Péturs á Kópavogshæli. Óli Pétur bjó yfir einstakri eðlislægri ró og æðruleysi en jafnframt var hann hrókur alls fagnaðar og dýrmætur gleðigjafi fyrir okkur öll sem nutum návista við hann. Innilegur hlátur hans gleymist aldrei.

Innilegar samúðarkveðjur til Edda, Pálínu, Viktors og Björns Inga og fjölskyldna.

Óli Valur, Halldór og Sveinn Valdimar.