Guðmundur Jóhann Hallvarðsson fæddist 26. janúar 1947. Hann lést 11. mars 2014. Útför Guðmundar fór fram 21. mars 2014.

Mig langar að minnast Guðmundar Hallvarðssonar í fáeinum orðum. Guðmundur var giftur Önnu Grétu frænku og fjölskyldur okkar hittust oft við ýmis tækifæri. Skötuveislur á Þorláksmessu, áramótafagnaðir og fermingarveislur koma meðal annars upp í hugann. Einnig leiðangrar í kartöflugarða á Korpúlfsstöðum, gönguferðir og síðast en ekki síst ævintýraleg ferð á Hornstrandir með stórum hópi við frumstæð skilyrði! Það ríktu þó ekki einungis fjölskyldutengsl heldur sameinaðist fullorðna fólkið einnig í pólitískri sannfæringu. Keflavíkurgöngur voru reglulegir viðburðir sem og pólitískir fundir og gjörningar ýmiss konar. Fylkingin var einnig oft nefnd á nafn og það lifnaði yfir fullorðna fólkinu þegar hana bar á góma!

Í mínum huga var Guðmundur þó alltaf mest Gvendur gítarkennari því hann kenndi mér á gítar í mörg ár. Frá fermingaraldri fram að stúdentsprófi var það fastur liður að taka strætó upp í Vogana í gítartíma til Gvendar. Guðmundur var góður kennari, áhugasamur og þolinmóður og náði vel til nemenda sinna sem voru á ýmsum aldri. Hann hélt nemendum sínum við efnið en var líka sveigjanlegur og það kom fyrir að maður fékk að spreyta sig á nýjum lögum þótt það væri strangt til tekið ekki komið að þeim! Stundum var svo gaman að læra að gítarinn var aftur tekinn upp úr kassanum á meðan beðið var eftir strætó á leiðinni heim!

Guðmundur var metnaðarfullur fyrir hönd nemenda sinna og duglegur að halda hópnum sínum saman. Hann hélt reglulega tónfundi þar sem nemendur spiluðu í stofunni á heimili þeirra Önnu Grétu. Að tónleikum loknum buðu þau hjónin upp á veitingar fyrir nemendur og aðstandendur. Það var alltaf gott að koma á heimili þeirra Önnu Grétu og Guðmundar. Mér þykir vænt um þennan tíma og gítarnámið hjá Guðmundi var góður skóli.

Guðmund sá ég síðast síðastliðið sumar og var þá auðljóst að hann var að glíma við alvarleg veikindi. Hann var þó sjálfum sér líkur og viðhorf hans til veikindanna var aðdáunarvert. Fjölskyldu Guðmundar sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðmundar.

Eva Gunnarsdóttir.

Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar komu nokkur ungmenni saman í Kópavogi og stofnuðu með sér félagsskap til dýrðar gyðjum mennta og lista. Var þar um að ræða Listafélagið Órækju og hafði aðsetur og starfsvettvang í Galleríi 109, sem varð nokkuð þekkt þau misseri sem Listafélagið Órækja var þar til húsa. Listafélagið stóð fyrir samkomum þar sem lesið var úr klassískum og samtímabókmenntum, lýrík og strengir hljóðfæra sungu sín ljóð.

Einn félagsmanna Listafélagsins Órækju var Guðmundur Jóhann Hallvarðsson, flinkur gítaristi af spænska skólanum og mikill áhugamaður um lýrik margs konar, einkum úr baráttudeildinni, og áhrinsorð gömlu meistaranna heilluðu hinn hrifnæma og gáfaða dreng og vin okkar allra, hann Guðmund Jóhann, sem var genitískur sonur ægifegurðar og tignar hinna vestfirsku Stranda.

Snemma fetaði Guðmundur leið föður síns, Hallvarðs Guðlaugssonar, og hans bræðra um fjölfarnar slóðir verkalýðsbaráttunnar og annarra manngildisheima samfélagsins. Á þeim vettvangi sem annars staðar vann Guðmundur mikið og óeigingjarnt eljuverk sem verður seint fullþakkað.

Á yngri árum, meðan Guðmundur bjó enn á bernskuheimilinu í Auðbrekkunni með foreldrum sínum, Hallvarði Guðlaugssyni byggingameistara og Lilju Guðmundsdóttur, og ömmu sinni, Jóhönnu, kom hann víða við í félagsmálum og á hinum pólitíska vettvangi og aflaði sér góðrar menntunar í fræðunum, stundaði m.a. rúmlega tvítugur nám í Moskvu um skeið. Það var á þeim árum er Rússar drukku enn í sig kennisetningarnar og vodkað óblandað af stút. Ennþá voru rúmir tveir áratugir þar til sængin var breidd endanlega yfir gamla ævintýrið og nýir draumar og annars konar knúðu dyra í því mikla ríki.

Snemma lagði Guðmundur Jóhann fyrir sig tónlistarkennslu, en hann stundaði ungur tónlistarnám í Tónskóla Sigursveins og kenndi þar seinna. Áður hafði hann lært á gítar, m.a. hjá Gunnari Jónssyni. Hinn ráðsetti tónlistarkennari sótti starf sitt lengi suður í Sandgerði og þar um slóðir. Hann kvæntist Önnu Margréti Jónsdóttur, dóttur Jóns Þórðarsonar kennara við Austurbæjarskólann og konu hans, Þórunnar Elfu Magnúsdóttur skálds. Börn þeirra Guðmundar og Önnu Margrétar eru Lilja Dögg, Hallvarður Jón og Elfa Rún.

Ég kveð hann Guðmund Jóhann vin minn, þann gáfaða félaga, húmorista og lífssnilling, með þökk fyrir samferð um daganna lendur.

Einar Garðar.