Jakob Örn Sigurðarson
Jakob Örn Sigurðarson
Íslendingaliðið Sundsvall tapaði í æsispennandi leik við Uppsala í gærkvöld, 70:67, á heimavelli í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram.

Íslendingaliðið Sundsvall tapaði í æsispennandi leik við Uppsala í gærkvöld, 70:67, á heimavelli í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram. Hlynur Bæringsson skoraði 11 stig fyrir Sundsvall og tók 5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson skoraði 10 stig og tók 3 fráköst, og Ægir Þór Steinarsson skoraði 4 stig og tók 3 fráköst.

Jakob jafnaði metin 1 og hálfri mínútu fyrir leikslok með þriggja stiga skoti, 65:65. Sundsvall komst svo yfir með körfu frá Mikael Lindquist en hann breyttist hratt úr hetju í skúrk þegar hann braut á Liam Rush í þann mund sem Rush jafnaði metin. Rush skoraði úr vítaskotinu sem hann fékk og kom Uppsala í 68:67 þegar hálf mínúta var eftir.

Jakob reyndi aftur þriggja stiga skot 20 sekúndum fyrir leikslok en það geigaði og Uppsala komst svo í 70:67. Jakob reyndi enn þriggja stiga skot í lokin, til að jafna metin, en það fór ekki heldur niður. sindris@mbl.is