Helgi Þorkelsson fæddist 17. september 1920. Hann andaðist 4. mars 2014. Útför Helga Þorkelssonar fór fram 13. mars 2014.

Elsku afi minn. Ég á svo bágt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Ég hef hugsað til þín á hverjum degi síðan þú fórst á spítalann og ég mun aldrei hætta að hugsa til þín. Vonandi ertu sameinaður Huldu ömmu á ný.

Ég kom kannski ekki oft í heimsókn en það var gott að vita af þér. Þú varst alltaf á sama eldhússtólnum þegar ég kom í heimsókn, svo fór ég í húsið þitt eftir að þú varst farinn og það var svo tómlegt að sjá stólinn þinn.

Ég get hlýjað mér við síðustu orðin sem þú sagðir við mig sem var hvað ég væri dugleg, og í síðasta faðmlaginu sem ég fékk frá þér tókstu þétt og vel utan um mig.

Eitt sem ég mun alltaf muna er að ég var alltaf Hulda litla í þínum augum, sama hvað ég var orðin gömul, og alltaf þegar þú kvaddir sagðirðu „farðu varlega“.

Ég sakna þín mikið og mun alltaf gera. Ég elska þig.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Hulda Haraldsdóttir.