Ástsæll Jón frá Ljárskógum lést úr tæringu aðeins 31 árs gamall.
Ástsæll Jón frá Ljárskógum lést úr tæringu aðeins 31 árs gamall.
Hátíðartónleikar verða haldnir í Vídalínskirkju í Garðabæ í kvöld, miðvikudag, klukkan 20, í tilefni aldarafmælis skáldsins og söngvarans Jóns frá Ljárskógum (1914-1945).

Hátíðartónleikar verða haldnir í Vídalínskirkju í Garðabæ í kvöld, miðvikudag, klukkan 20, í tilefni aldarafmælis skáldsins og söngvarans Jóns frá Ljárskógum (1914-1945). Fram koma Unnur Helga Möller, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Unnur Birna Björnsdóttir, Guðmundur Davíðsson, Jóhann Björn Ævarsson, Sigurður Helgi Oddsson, Háskólakvartettinn og Karlakór Reykjavíkur. Flutt verða mörg kunnustu sönglög skáldsins og þar á meðal lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg og heyrast nú í upprunalegri útsetningu. Gestir munu heyra einsöngva, dúetta, kvartett og kór, og verða meðal annars flutt frumsamin lög eftir Jón sem mörg hver hafa ekki heyrst áður.

Á föstudaginn kemur verður öld liðin frá fæðingu Jóns en hann varð einn ástsælasti tónlistarmaður landsins á sinni tíð. Strax um tvítugt söng hann sig inn í huga þjóðarinnar ásamt félögum sínum í M.A.-kvartettinum. Jón var þar fremstur í flokki, þýður bassasöngvari, og höfuðskáld. Aðrir í kvartettinum voru þeir Jakob Hafstein, síðar lögfræðingur, og bræður frá Hæli í Gnúpverjahreppi, þeir Gestur, síðar bóndi og alþingismaður, og Þorgeir Steinþórssynir, síðar læknir.

Meðal söngljóða Jóns sem slógu í gegn og hafa lifað með þjóðinni má nefna „Blærinn í laufi“, „Húmar að kveldi“, „Ó, Súsanna“ og „Sestu hérna hjá mér ástin mín“.

Ljóð Jóns þóttu bæði þíð og einlæg og Jón markaði sér ungur stöðu sem lýrískt skáld sem orti kvæði full af bjartsýni og trú. Örlög hans voru þó að deyja ungur, aðeins 31 árs gamall, úr berklum, en eftir hann liggja tvær ljóðabækur og söngtextahefti.

Þá þekkja margir söng Jóns og félaga hans í M.A.-kvartettinum, sem naut einstakra vinsælda á sínum tíma, og hefur ómað í útvarpinu í 70 ár.

Tónleikarnir í kvöld byggjast á mikilli rannsóknarvinnu og eru liður í sagnfræðirannsókn á sögu kvartettsins og dægurtónlistarsögu Íslands á millistríðsárunum.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir velkomnir.