Sveinn Arason
Sveinn Arason
Stefnt er að því að niðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar á málskostnaðarmáli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra liggi fyrir áður en bankaráð Seðlabanka Íslands (SÍ) fundar í maí.

Stefnt er að því að niðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar á málskostnaðarmáli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra liggi fyrir áður en bankaráð Seðlabanka Íslands (SÍ) fundar í maí.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir miðað við þarnæsta fund frá síðasta fundi ráðsins 20.3.

„Rannsóknin er í eðlilegum farvegi. Við vitum að bankaráðið fundar einu sinni í mánuði. Ég efast um að við náum að ljúka úttektinni fyrir næsta fund. Ég myndi frekar ætla að við gætum lokið vinnunni fyrir þarnæsta fund, eða einhvern tímann í maí. Það þarf að ræða við fólk, skoða gögn, lesa texta og fá heildarmynd. Þegar hún er komin þarf að senda hana til umsagnar, virða andmælarétt þeirra sem koma við sögu í skýrslunni. Andmælarétturinn getur verið vika, jafnvel lengri tími. Eftir það kemur í ljós hvort einhverju þarf að breyta í skýrslunni.“

Var falið að rannsaka greiðslur

Bankaráðið fól Ríkisendurskoðun á fundi 13. mars að yfirfara greiðslur SÍ vegna málsóknar Más gegn bankanum. 20. mars fundaði bankaráð aftur og staðfesti ársreikning SÍ þannig að hægt væri að leggja hann fram fyrir aðalfund SÍ á fimmtudaginn kemur. Hafði Ríkisendurskoðun þá skilað 1. hluta rannsóknarinnar sem laut að því hvort óhætt væri að staðfesta ársreikning, í ljósi nýrra upplýsinga um að Seðlabankinn greiddi málskostnaðinn.

Haft var eftir Sveini í Morgunblaðinu 15. mars sl. að Ríkisendurskoðun hefði „eðli máls samkvæmt ekki langan tíma í þetta“ og vísaði hann þar til hinnar afmörkuðu rannsóknar er laut að því hvort flokka mætti greiðslu Seðlabankans á málskostnaði Más sem rekstrarkostnað hjá bankanum. Skilaði stofnunin þeirri niðurstöðu til bankaráðs SÍ miðvikudaginn 19. mars.

Haft var eftir Sveini í blaðinu 18. mars að það væru „fleiri atriði í þessu máli sem [stofnunin þyrfti] náttúrlega lengri tíma til að skoða“. Óvíst væri hvenær því lyki. Hinn 21. mars var haft eftir Ólöfu Nordal, formanni bankaráðs SÍ, í blaðinu að rannsóknin væri enn í fullri vinnslu, þótt frumathugun á flokkun greiðslunnar væri þá lokið. baldura@mbl.is