Í deiglunni Kjördæmamálið er enn eitt dæmið um hvernig ákvarðanatöku í stórum málum sem snerta alla landsmenn er stöðugt slegið á frest, segir Eyjólfur Ármannsson, og geymt uns allt er komið í hnút.

Í deiglunni Kjördæmamálið er enn eitt dæmið um hvernig ákvarðanatöku í stórum málum sem snerta alla landsmenn er stöðugt slegið á frest, segir Eyjólfur Ármannsson, og geymt uns allt er komið í hnút. EFST Á baugi í þjóðfélagsumræðunni undanfarnar vikur og mánuði hefur verið hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að sjálfsögðu má svo ekki gleyma 50 ára afmæli lýðveldisins sem er ofarlega í hugum manna.

Það má nánast fullyrða að Ísland eigi eftir að verða eitt af ríkjum Evrópusambandsins í framtíðinni. Hvað eigum við að gera fyrir utan það? Við erum Evrópumenn og höfum alltaf verið. Það er bara spurning hvenær við tengjumst meginlandinu. Hvenær við tökum ákvörðunina sem til þarf er erfitt að segja. Það er reyndar rannsóknarefni hvernig ýmsar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í þessu samfélagi. Má þar nefna hvernig staðið var að ákvörðun um álver á Keilisnesi og nú ákvörðun um byggingu á húsi yfir Hæstarétt, sem var valin ákaflega sérkennilegur staður. Fróðlegt verður að sjá hvernig HM í handbolta sem halda á næsta ári reiðir af. Kvótamálin eru einnig gott dæmi um þetta og sjálfsagt mætti lengi halda áfram. Sjálft ESB-málið er reyndar farið að minna svolítið á leikrit eftir Samuel Beckett þar sem tveir menn eru að bíða eftir að eitthvað gerist sem síðan aldrei verður.

Á afmælinu 17. júní var haldinn merkilegur þingfundur á Þingvöllum. Formenn þingflokkanna héldu þar ræður og af þeim mátti ráða að skoðanir um aðild að ESB eru mjög skiptar. Virtist það raunar vera eina deilumálið. Í lok þingfundarins var síðan samþykkt einróma þingsályktun um að ljúka endurskoðun VII. kafla stjórnarskrárinnar fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar. Það má eflaust færa góð rök fyrir því að mannréttindin sem varin eru í VII. kafla stjórnarskrárinnar séu virt í dag. Breyting á honum hefur þar lítið að segja.

Það er skoðun mín að endurskoðun II. og III. kafla stjórnarskrárinnar sé miklu þarfara verk og í raun alveg nauðsynlegur undirbúningur fyrir aðild að Evrópusambandinu. Sérstaklega á þetta við um þriðja kaflann sem fjallar um kjördæmaskipan landsins. Fullyrða má að þar séu grundvallar mannréttindi brotin á miklum meirihluta Íslendinga. Það þarf engan stærðfræðing til að sjá hve kosningaréttur er misjafn eftir búsetu í landinu. Kjördæmamálið er enn eitt dæmið um hvernig ákvörðunartöku í stórum málum sem snerta nær alla Íslendinga er stöðugt slegið á frest þangað til helst allt er komið í hnút.

Mikið hefur verið talað um að gera landið að einu kjördæmi. Um það er bara gott eitt að segja, nema hvað vægi Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins og vald flokkanna myndi þá verða nær algert.

Stundum er sagt að sagan endurtaki sig. Hún mætti það alveg í Kjördæmamálinu. Árið 963 var á Alþingi landinu skipt í fjórðunga. Árið 1874 var þinginu skipt í tvær deildir, þá efri og neðri.

Það má alveg hugsa sér í framtíðinni Alþingi starfandi aftur deildarskipt. Í neðri deild verði 36 landskjörnir þingmenn. Í þeirri efri 24 fjórðungskjörnir. Sunnlendingafjórðungur fengi helming þingmanna. Hinir þrír fjórðungarnir skipti hinum helmingnum jafnt á milli sín. Þar með yrðu þingmenn 60 og aðeins 3 af núverandi þingmönnum þyrftu að eiga hættu á að verða atvinnulausir. Færa má ýmis rök fyrir deildaskiptingu meðal annars málefnalegri og vandaðri lagasmíð.

Varðandi endurskoðun á II. kafla er það að segja að gera ætti forseta lýðveldisins ábyrgan fyrir stjórnarathöfnum. Þetta mætti gera með því að sameina forsætisráðherraembættið og forsetaembættið. Fyrri umferð forsetakosninga færi fram samhliða alþingiskosningum. Síðari umferðin fram tveim vikum seinna. Verið væri að kjósa um stjórnarmyndunarumboðið í síðari umferðinni. Eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdavaldinu yrði mun virkara og þannig myndi þingræði í landinu eflast. Það má eflaust sýna fram á það með mörgum dæmum að þetta eftirlitshlutverk hefur verið veikt. Nægir þar að nefna ýmsar nefndir og ráð sem kosnar eru af Alþingi til dæmis bankaráð Seðlabankans. Rökin fyrir því að gera forseta ábyrgan fyrir stjórnarathöfnum er meðal annars minnkandi áhrif sérhagsmuna og meira yrði hugsað um heildarhagsmuni en fyrr.

Með framangreindu myndi allt miðstjórnarvald í landinu eflast en það hefur alltaf verið veikt gegnum Íslandssöguna. Öll ákvörðunartaka yrði agaðri, yfirvegaðri og markvissari. Með þessu eru komnar forsendur fyrir tveggjaflokkakerfi sem er í deiglunni hérlendis. Ekkert er því til fyrirstöðu að flokkarnir á vinstri væng stjórnmálanna sameinist nema ef vera skyldi stjórnarskrárbreyting og þá sérstaklega breyting á kjördæmaskipan landsins. Annað þarf ef til vill meiri tíma til að þróast. Markmiðið hlýtur alltaf að vera hið sama; opið og lýðræðislegt þjóðfélag.

Það er vonandi að ráðamenn þjóðarinnar hafi kjark og dug til að taka stórar ákvarðanir á lýðveldisárinu. Nú er rétti tíminn. Loks má minna á að eins og með aðild að Evrópusambandinu ætti einnig að þurfa þjóðaratkvæðagreiðslu til mikilvægra stjórnarskrárbreytinga sem varða jafnmikilvæg grundvallar mannréttindi sem kosningaréttur er.

Höfundur er laganemi.