Velta Eimskips jókst um 22% fyrstu sex mánuði ársins Hagnaður varð um 206 milljónir HAGNAÐUR Eimskips varð alls um 206 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er um 4% af rekstrartekjum sem námu 4.735 milljónum.

Velta Eimskips jókst um 22% fyrstu sex mánuði ársins Hagnaður varð um 206 milljónir

HAGNAÐUR Eimskips varð alls um 206 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er um 4% af rekstrartekjum sem námu 4.735 milljónum. Á sama tíma í fyrra nam tap félagsins 12 milljónum en á því tímabili varð það fyrir 204 milljóna króna gengistapi vegna gengisfellingar krónunnar, sem að fullu var fært til gjalda á fyrri hluta ársins. Rekstrartekjur Eimskips jukust fyrstu sex mánuði ársins um 22% meðan rekstrargjöld jukust um 16%. Þennan árangur segir félagið skýrast af góðri nýtingu skipa í áætlanaflutningum til og frá Íslandi, aukningu tekna af starfsemi Eimskips erlendis, en þær jukust um 24% og lækkun rekstrarkostnaðar félagsins.

Hagnaður af reglulegri starfsemi Eimskips varð alls 396 milljónir fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 178 milljónir árið 1993. Þá jókst veltufé frá rekstri úr 545 milljónum í 804 milljónir milli ára.

Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, sagði í samtali við Morgunblaðið að rekstraráætlun gerði ráð fyrir hagnaði síðari hluta ársins. Vonast væri til að þróunin yrði sambærileg við það sem hefði verið á fyrri hluta ársins. Markmiðum um arðsemi hefur hins vegar ekki verið fyllilega náð hjá Eimskip. "Enn sem komið er okkar markmið að 10% arður sé af eigin fé eftir skatta. Á fyrstu sex mánuðunum náðum við 9% arði," sagði Hörður. Hann sagðist telja að þessi arðsemi væri ekki viðunandi. Kominn væri tími til að endurmeta arðsemisviðmiðunina og ekki óeðlilegt að gera það núna þar sem samdráttarskeiðinu væri að ljúka og nýtt þróunarskeið vonandi framundan. "Ég tel að það sé eðlilegt að gera meiri arðsemiskröfur og að þær séu í samræmi við það sem tíðkast erlendis. Þar er algengt að krafa um arðsemi í fyrirtækjum sé a.m.k. á bilinu 12-15%."

Fram kemur í frétt frá Eimskip að heildarflutningar með skipum félagsins fyrstu sex mánuði ársins voru alls um 539 þúsund tonn, en voru 506 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra og hafa því aukist um 6,5%. Útflutningur með áætlanaskipum jókst verulega eða um 23% og er þar einkum um að ræða flutning á frystum fiski.

Innflutningur með áætlanasiglingum hefur einnig aukist nokkuð m.a. vegna flutninga fyrir varnarliðið, en þá flutninga annaðist Eimskip ekki á fyrri hluta ársins 1993. Inn- og útflutningur með stórflutningaskipum hefur hins vegar dregist nokkuð saman. Þá hefur flutningur milli erlendra hafna aukist um 20% frá sama tímabili í fyrra.

Eimskip rekur nú 10 skip en þar af eru 7 skip í eigu félagsins og dótturfyrirtækja, tvö skip eru á tímaleigu og eitt á þurrleigu.