NÝR formaður var kjörinn á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Kirkjubæjarklaustri 12. og 13. ágúst, Ólafía Jakobsdóttir Skaftárhreppi sem er fyrsta konan til að gegna því embætti innan samtakanna. Össur Skaprhéðinsson umhverfisráðherra, einn gesta fundarins kvaðst fylgjandi því að ríkið aðstoðaði sveitarfélög við fráveituframkvæmdir. 25 ár eru frá stofnun Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Steingrímur Ingvarsson fráfarandi formaður gat þess í sínu ávarpi að margt hefði breyst á þessum tíma og margt sem áður var baráttumál þætti nú sjálfsagður hlutur. Á fundinum voru samþykktar ályktanir þar sem skorað er á heilbrigðisráðherra að tryggja fjármagn svo hægt sé að hefjast handa við byggingu 2. áfanga Sjúkrahúss Suðurlands. Einnig var skorað á heilbrigðisyfirvöld að bæta sjúkrahúsinu þann niðurskurð sem átt hefur sér stað undanfarin ár og bitnar á þjónustu við sunnlenska íbúa. Í ályktun til umhverfisráðherra var fagnað vinnu við að undirbúa úrbætur í frárennslismálum og bent á að átak í þeim efnum væri mikilvægt fyrir matvælaframleiðsluhérað eins og Suðurland. Fagnað var þeim skilningi ráðherra á fundinum að aðstoða þyrfti sveitarfélög sem losa þyrftu frárennsli á viðkvæmum stöðum og á nauðsyn þess að ríkissjóður aðstoði þau við úrbætur. Þá var þess óskað að virðisaukaskattur af efni og vinnu við fráveitur yrði felldur niður. Í annarri ályktun í málaflokknum var bent á nauðsyn þess að fram fari heildarkönnun varðandi neysluvatnsgæði, fráveitur, sorphirðu og förgun úrgangs. Aðalfundur SASS styður þau áform að flytja rekstur grunnskóla til sveitarfélaga en í ályktun þess efnis var áhersla lögð á að sveitarfélögunum verði tryggðar tekjur til að sinna verkefninu. Einnig að ganga þyrfti frá réttindamálum starfsmanna grunnskólans áður en yfirfærslan ætti sér stað. Þá var hvatt til aukinnar samvinnu á sviði skólamála og að stjórn SASS mótaði tillögur að samstarfi sveitarfélaga og verksviði fræðsluráðs. Það er góð tilfinning að vera kosin sem formaður samtakanna. Þetta tekur undir baráttu kvenna að láta að sér kveða. Ég er mikill stuðningsmaður jafnréttis kynjanna og hef mikinn áhuga á umhverfis- og ferðamálum en skólamálin verða aðalverkefni samtakanna fram á næsta ár," sagði Ólafía Jakobsdóttir nýkjörinn formaður SASS. Með henni í stjórn eru Sigurður Jónsson, Selfossi, Kristján Einarsson, Selfossi, Bjarni Jónsson, Ölfushreppi, Guðmundur Svavarsson, Hvolsvelli og Steinþór Ingvarsson, Gnúpverjahreppi. Morgunblaðið/Sigurður Jónsson Nýkjörin stjórn SASS ásamt framkvæmdastjóra. Hjörtur Þórarinsson framkvæmdastjóri, Steinþór Ingvarsson, Guðmundur Svavarsson, Óli Már Aronsson, Ólafía Jakobsdóttir, Bjarni Jónsson, Sigurður Jónsson og Kristján Einarsson.