Ætla að steypa hús á tunglinu London. The Daily Telegraph. FYRSTU skrefin í átt til steypuframkvæmda á tunglinu verða stigin í næstu ferð bandarísku geimferjunnar Endeavour út í himinhvolfið.

Ætla að steypa hús á tunglinu London. The Daily Telegraph.

FYRSTU skrefin í átt til steypuframkvæmda á tunglinu verða stigin í næstu ferð bandarísku geimferjunnar Endeavour út í himinhvolfið. Geimskoti var frestað í gær á síðustu sekúndu er tölvur geimferjunnar fundu bilun í eldsneytisdælu og slökktu á hreyflum.

Um borð í Endeavour verður sérsmíðuð steypustöð þar sem hrært verður saman sementi, sandi og vatni til þess að kanna hvernig steypa blandast og sest í svo gott sem þyngdarleysi. Þyngdarkrafturinn þykir ráða úrslitum um hvernig steypa harðnar og sest.

Þegar maðurinn snýr aftur til tunglsins verður hann að notast við það byggingarefni sem þar er að finna, þar sem flutningskostnaður frá jörðu yrði annars sem næmi 3,2 milljörðum króna á tonnið. Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) áformar að reisa rannsóknarstöð á tunglinu. Ráðgert er að byggja þriggja hæða hús og verða veggirnir að verja væntanlega dvalargesti fyrir hættulegum geimgeislum.

Áhugi NASA á að nota jarðefni á tunglinu til byggingarframkvæmda þar vaknaði eftir tilraunir með jarðvegssýni sem Apollo-geimförin sóttu til tunglsins á sínum tíma. Var þeim blandað við vatn og sement á jörðu niðri og fékkst úr því óvenju viðnámsþolin og endingargóð steypa.

Vatn til steypuframkvæmda er ekki að finna á tunglinu en lausn hefur verið fundin á þeim vanda. Hún er í því fólgin að blanda saman 595 kílóum af títanjárni, málmstein sem er að finna á tunglinu, og 8 kílóum af vetnisgasi, sem flutt er frá jörðu. Við það verða til 60 lítrar af vatni.