Björgunarsveit Ingólfs 50 ára Björgunarsýning á Miðbakka og kaffisamsæti í Hafnarhúsi jörgunarsveit Ingólfs í Reykjavík fagnar hálfrar aldar afmæli sínu næstkomandi laugardag og verður mikið um dýrðir við Reykjavíkurhöfn af þessu tilefni.

Björgunarsveit Ingólfs 50 ára Björgunarsýning á Miðbakka og kaffisamsæti í Hafnarhúsi jörgunarsveit Ingólfs í Reykjavík fagnar hálfrar aldar afmæli sínu næstkomandi laugardag og verður mikið um dýrðir við Reykjavíkurhöfn af þessu tilefni. Björgunarsveitin var stofnuð 28. febrúar 1944 upp úr Slysavarnadeildinni Ingólfi. Sveitin hefur frá upphafi rekið björgunarskip fyrir Slysavarnafélag Íslands. Fyrsta skipið fékk Slysavarnafélagið að gjöf frá Sandgerði og var það gert upp í Reykjavík. Það eyðilagðist við björgun við Engey árið 1954. Árið 1956 gaf Gísli J. Johnsen kaupmaður Slysavarnafélaginu björgunarskip sem var í notkun allt fram til ársins 1989. Núverandi björgunarskip er Henry Hálfdánsson. Auk þess á Björgunarsveitin þrjá minni báta. Félagar í Björgunarsveit Ingólfs eru á bilinu 1.200 til 1.300 en virkir félagar eru um 80. Björgunarsveit Ingólfs er ein af 90 björgunarsveitum Slysavarnafélags Íslands og eina Reykjavíkursveitin sem sinnir bæði sjó- og landútköllum. Á síðasta ári var sjóflokkurinn kallaður út 23 sinnum og land- og bílaflokkur 25 sinnum. Í tilefni tímamótanna nú verður haldin björgunarsýning með þátttöku tveggja þyrlna og síðar um daginn verður kaffisamsæti í Hafnarhúsinu. Undirbúningur afmælisins hefur verið í höndum ungs manns, Ragnars Magnússonar, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra sveitarinnar í sumar og verið ritstjóri afmælisrits sem er að koma út, en formaður Björgunarsveitarinnar er Þorsteinn Þorkelsson.

Hvað verður gert í tilefni af stórafmælinu, Ragnar?

"Við höldum upp á afmælið á morgun með pomp og prakt og mikill undirbúningur hefur staðið yfir í sumar. Hátíðarhöld verða á Miðbakka Reykjavíkurhafnar sem hefjast kl. 14. Þar verða fluttar ræður og menn heiðraðir. Þá verður haldin björgunarsýning á Miðbakka og vonumst við eftir því að tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar taki þátt í sýningunni en þó er það óvíst. Þegar sýningunni lýkur verður boðið upp á kaffi í Hafnarhúsinu."

Hvenær varst þú ráðinn framkvæmdastjóri sveitarinnar og í hverju er starf þitt fólgið?

"Ég var ráðinn tímabundið sem starfsmaður í sumar til að sjá um framkvæmdir á afmælinu. Við erum einnig að gefa út veglegt afmælisrit sem kemur væntanlega úr prentun í dag."

Hvernig rit verður þetta?

"Félagar úr sveitinni skrifa í blaðið og fleiri samstarfsmenn okkar, t.d. úr Almannavörnum ríkisins og Landhelgisgæslunni. Í því verða alls kyns frásagnir af björgunarstörfum og annað efni. Það verður spennandi að sjá blaðið koma úr prentun því ég hef unnið við það meira eða minna í allt sumar. Blaðinu verður dreift til allra björgunarsveita landsins og allra félaga í Björgunar- og slysavarnadeild Ingólfs sem eru á bilinu 1.200­1.300. Því verður einnig dreift víðar. Einnig hef ég verið að vinna dálítið í húsnæði okkar hér á Grandagarði, skipta um dúk á gólfi og mála. Það þarf líka einhver að vera til staðar þegar iðnaðarmenn eru hér að störfum."

Hve margir eru virkir í starfi Björgunarsveitarinnar Ingólfs?

"Við erum með um 80 manns á útkallsskrá, bæði til sjós og lands. Við erum eina björgunarsveitin í Reykjavík sem sinnir björgunarmálum fyrir Reykvíkinga og Faxaflóasvæðið. Við stór útköll eru á bilinu 30­40 manns kallaðir út. Allt er þetta unnið í sjálfboðastarfi."

Hvað veldur því að menn bjóðast til þessara starfa?

"Líklega byrja flestir á því að fá áhuga fyrir fjallgöngum og ferðalögum og það er stærsti hlutinn í starfi björgunarsveitarmanns. Hann ferðast um landið, bæði á æfingum og í útköllum. Auk þess kynnist maður fjölda manns í starfinu og vináttusambönd myndast. Sjálfur byrjaði ég 18 ára gamall að ferðast með félögum mínum og fórum við um Fimmvörðuhálsinn og Laugaveginn svokallaða og upp frá því vaknaði áhugi minn fyrir björgunarsveitarstarfi. Nú hef ég verið í fimm ár félagi í sveitinni."

Hvaða kostum þarf góður björgunarsveitarmaður að vera búinn?

"Ég held að best fari á því að menn séu léttir í lund en þegar komið er í útköllin þurfa þeir fyrst og fremst að hafa hugann við það að slasa ekki sjálfa sig. Fyrsta reglan er að gæta að sjálfum sér því slasaður björgunarsveitarmaður kemur engum að gagni."

Við hvað starfaðir þú áður?

"Ég dvaldist í sjö mánuði á vegum Rauða kross Íslands í Gambíu. Rauði kross Íslands styrkir verkefni þar úti sem felst í uppbyggingu á skrifstofu þar í landi. Við unnum að því að búa þá skrifstofu undir það að verða fjárhagslega sjálfstæða í framtíðinni. Það var friðsælt þarna mestan tímann þótt bylting hafi verið gerð þar nýlega. En hlutirnir ganga ekki jafnhratt fyrir sig þar og á Íslandi."

Ragnar Magnússon er fæddur 3. júlí 1970. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Sund árið 1990 og vann í þrjú ár við verkamannavinnu hjá Reykjavíkurborg. Á síðasta ári dvaldist hann í sjö mánuði í Gambíu á vegum Rauða kross Íslands. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Björgunarsveitarinnar Ingólfs til tímabundinna starfa síðastliðið vor.

Í stórum útköllum eru 30­40 manns kallaðir út.

RAGNAR MAGNÚSSON.