Feta í fótspor föðurins Hornafirði - Hér sannast máltækið um eplið og eikina því þrjú af fjórum börnum Arnar Þórs Þorbjörnssonar, skipstjóra á Andey SF 222, eru meira og minna á sjó hjá honum en Unnur móðir þeirra heldur enn í þann yngsta, Atla, sem er 5 ára, og fær stundum að heyra það að hún haldi of fast í hann.
Í síðasta túr Andeyjar var Ágústa, yngsta dóttir þeirra, á sextánda ári, með sem einn áhafnarmeðlimur en Örn sagðist aldrei leyfa þeim öllum að vera um borð í einu, svo Stefán, 17 ára, og Hildur, sem er 21 árs og hefur verið lengst af þeim systkinum á sjó eða í 4 ár á Andey, tóku sér sumarfrí þennan fræga túr þegar systir þeirra bjargaði norsk-íslenska þorskastríðinu.
Tengdasonur í norska sjóhernum
Já, þessir túrar í Smuguna eru um margt ólíkir öðrum túrum, allt fullt af þorski og varðskip og þyrlur sveimandi yfir íslensku skipunum en eftir heimsókn norsku gæslunnar í Andey á dögunum er gantast með það um borð að Örn þurfi ekkert að hafa áhyggjur af þessu lengur því að hann eigi tengdason í norska sjóhernum. "Ég var að vappa í kringum þá þessa þrjá tíma sem þeir þurftu að bíða eftir Senju og var annar þeirra mjög sætur. Þegar þeir kvöddu okkur spurði einn strákanna um borð hvort hann væri til í að kyssa mig kveðjukoss og hann fékk ég heldur betur. Sagði ég við pabba á eftir að hann þyrfti nú ekkert að óttast lengur þegar hann væri á þessum miðum því hann ætti orðið tengdason í norska sjóhernum," segir Ágústa
Örn gerði sér lítið fyrir og kallaði í herskipið og þakkaði skipherranum kærlega fyrir að sigla 100 sjómílur til að uppfylla ósk dóttur sinnar því að hún hafði beðið lengi eftir að sjá alvöru herskip. En ekki fylgdir sögunni hvernig öllu þessu var tekið um borð í Senju.
Næstkomandi laugardagsmorgun mun Andey halda á Smugumiðin á ný og Örn og Ágústa verða eftir. Ágústa sagðist alveg vera til að fara aftur en skólinn væri að byrja. Hildur og Stefán munu fara um borð og aðspurð sögðust þau ekki kvíða því að fara þarna norðureftir. Eina leiðinlega við þetta væri fimm daga stím á miðin og það væri hundleiðinlegt að sitja aðgerðarlaus þessa daga.
Fjölskyldan frá vinstri Hildur, Ágústa, Arnar Þór Þorbjörnsson og Stefán.