Norges Fiskarlag Aðgerða krafist í máli ræðismannsins ósló. Morgunblaðið.

Norges Fiskarlag Aðgerða krafist í máli ræðismannsins ósló. Morgunblaðið. "VIÐ teljum það með öllu óásættanlegt að norskur ræðismaður skuli vinna gegn mikilvægum hagsmunum Norðmanna og stefnu norskra stjórnvalda með því að senda togara til að stunda sjóræningjaveiðar í Barentshafi. Norsk stjórnvöld verða að grípa til viðeigandi aðgerða í máli þessu," segir Jon Lauritzen, talsmaður Norges Fiskarlag, heildarsamtaka hagsmunaaðila í norskum sjávarútvegi.

Stjórn samtakanna hefur ekki krafist þess beinlínis að ræðismaðurinn á Akureyri verði settur af. Lauritzen lætur hins vegar nægja að minna á að norsk stjórnvöld hafi áður látið til sín taka í sambærilegum málum. "Við göngum út frá því að svo verði einnig nú," segir Lauritzen.

Talsmaður norska utanríkisráðuneytisins, Ingvard Havnen, segir að ekki hafi verið afráðið hvernig brugðist verði við veiðum fiskiskipa ræðismannsins í Smugunni. "Við bíðum eftir skýrslu frá sendiráðinu í Reykjavík og væntum þess að þar komi fram skýringar ræðismannsins. Fyrst þarf að afla allra upplýsinga í máli þessu. Þá fyrst getum við tjáð okkur um hugsanleg viðbrögð," segir Havnen.

Það hefur aðeins gerst einu sinni á síðari árum að ræðismaður Norðmanna hafi verið leystur frá störfum. Það gerðist 1. janúar 1993 er stjórnvöld gátu ekki sætt sig við framferði aðalræðismanns Noregs í Guatemala. Sá hafði í viðtali varið fjöldamorð á indíánum í landinu sem sakaðir voru um að vera "flugumenn kommúnista". Þáverandi utanríkisráðherra Noregs, Thorvald Stoltenberg, lýsti þá yfir því að ekki væri unnt að una því að ræðismenn gæfu ranga mynd af viðhorfum og stefnu norsku ríkisstjórnarinnar.