Norskur fiskifræðingur Veiðarnar ekki ógnun við þorsk stofninn TORE Jakobsen, fiskifræðingur við Hafrannsóknarstofnunina í Bergen, segir að veiðar Íslendinga í Smugunni séu ekki bein ógnun við norsk-rússneska þorskstofninn, þar sem ekki séu mikilvægar...

Norskur fiskifræðingur Veiðarnar ekki ógnun við þorsk stofninn

TORE Jakobsen, fiskifræðingur við Hafrannsóknarstofnunina í Bergen, segir að veiðar Íslendinga í Smugunni séu ekki bein ógnun við norsk-rússneska þorskstofninn, þar sem ekki séu mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir stofninn á hafsvæðinu.

Jakobsen sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að veiðarnar kunni engu að síður að hafa áhrif á veiðar annarra þjóða, t.d. gætu Norðmenn og Rússar neyðst til að minnka fiskikvóta sína. Að sögn NTB fréttastofunnar hafa skip íslenskra útgerða og skip undir hentifána veitt um 22.000 tonn það sem af er árinu en það er um 7% af norska kvótanum.

Smáþorsk í Smugunni er helst að finna í suð-austurhluta hennar og er aðeins um lítinn hluta af þorskstofninum að ræða. Sá fullvaxta þorskur sem Íslendingar veiða fer inn á og út af svæðinu í leit að æti. Þegar litlir árgangar þorsks ganga, veiðist lítið í Smugunni.

Um verndarsvæðið við Svalbarða gegnir hins vegar allt öðru máli. Svæðið er mun stærra og um 25% af uppeldisstöðvum þorsksins eru innan verndarsvæðisins. Segir Jakobsen að fiskifræðingar telji því mikilvægt að takmarka veiðar þar. Er svæðinu lokað þegar mikið hefur veiðst af undirmálsfiski.