Sundkappar á fornum slóðum
FIMM Íslendingar hafa á seinni tímum þreytt Drangeyjarsund, en fyrstur manna til að synda úr Drangey til lands var Grettir Ásmundarson eins og segir frá í Grettis sögu. Þremur sundkappanna var í byrjun vikunnar boðið til Drangeyjar og var það Jón Eiríksson, oft nefndur Drangeyjarjarl, sem stóð fyrir boðinu. Sundkapparnir þrír eru Pétur J. Eiríksson, sem synti frá Drangey til lands 1936, Eyjólfur Jónsson, sem er sá eini sem hefur tvisvar sinnum þreytt Drangeyjarsund, árin 1957 og 1959, og Axel Kvaran, sem synti úr Drangey 1961.
Jón rekur fyrirtækið Drangeyjarferðir og kvaðst hann hafa langað til að bjóða köppunum á fornar slóðir. "Ég held að þeir hafi haft dálítið gaman af þessu. Þeir fóru út í Drangey og tveir þeirra gengu upp á eyna. Síðan sigldum við upp að Reykjum og þeir böðuðu sig í Reykjalauginni," sagði Jón.
Auk þeirra fyrrnefndu synti Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn Drangeyjarsund árið 1927 og var það í fyrsta sinn eftir hið sögufræga sund Grettis Ásmundarsonar, en talið er að hann hafi synt til lands úr eynni árið 1030.
Margar þjóðsögur eru tengdar við Drangey og segir frá einni þeirra í Landið þitt, Ísland. Segir þar frá því að "Guðmundur biskup góði hafi tekið að vígja eyna vegna þess hve margir höfðu farist þar með sviplegum hætti. En þegar hann var langt kominn að vígja allt bjargið kom tröllsleg loppa fram úr bjarginu og bað vætturin Guðmund hætta vígslunni vegna þess að einhvers staðar yrðu vondir að vera. Er það algengt máltæki síðan. Skildi hann þá hluta af bjarginu eftir óvígðan og heitir það Heiðnabjarg. Aldrei er sigið í það. Í bjarginu eru ljósleitar rákir er mynda krossmark. Heitir þar Kross og þykir mikil furðusmíð."
Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Laugin kæld
SUNDGARPARNIR fóru að Reykjum og ornuðu sér í lauginni, en vatnið er 55 gráðu heitt svo það verður að kæla það fyrir baðferð.
Drangeyjargarpar
ÞEIR rifjuðu upp liðin afreksverk í lauginni. F.v.: Axel Kvaran, Pétur J. Eiríksson og Eyjólfur Jónsson.
Lagst til sunds
DRANGEYJARSUNDMENNIRNIR stungu sér til sunds, enda alvanir sjóböðum.