Clinton sáttur við afsögn Altmans Búist við frekari hrókeringum vegna Whitewater-málsins Washington. Reuter.

Clinton sáttur við afsögn Altmans Búist við frekari hrókeringum vegna Whitewater-málsins Washington. Reuter.

BILL Clinton, Bandaríkjaforseti, tók á miðvikudag við afsögn Rogers Altmans, aðstoðarfjármálaráðherra, sem gagnrýnendur segja hafa glatað öllu trausti þegar hann bar vitni við rannsókn þingsins á Whitewater-málinu. Clinton sagðist í bréfi til Altmans harma afsögnina, en sagði: "Ég tel, að miðað við aðstæður hafi ákvörðun þín verið rétt." Lloyd Bentsen, fjármálaráðherra, hefur mælt með Frank Newman, aðstoðarmanni í ráðuneytinu, sem arftaka Altmans.

Newman hefur verið aðstoðarmaður í ráðuneytinu síðan í maí í fyrra. Starf hans hefur snúist um þjóðarskuldir, reglugerðir um bankamál og önnur fjármál innanlands. Öldungadeild þingsins þarf að staðfesta tilnefningu hans.

"Blóraböggull"

Það hefur vakið athygli fréttaskýrenda, að enginn þeirra embættismanna, sem hafa látið af störfum vegna Whitewatermálsins, tengist beinlínis Whitewater-fyrirtækinu sem Clintonhjónin ráku, ásamt fleirum, í Arkansas og varð gjaldþrota fyrir 17 árum. Hins vegar er um að ræða embættismenn í Washington, sem hafa reynt að verja forsetann pólitískum áföllum vegna málsins.

Altman var hæst settur þeirra sem hafa vikið úr embætti og í innsta hring stjórnmálanna í Washington hefur hann verið kallaður "blóraböggull". Hann var harðlega gagnrýndur fyrir að láta undir höfuð leggjast að greina bankanefnd öldungadeildar þingsins einungis frá einum fundi sem starfsmenn Hvíta hússins og embættismenn í fjármálaráðuneytinu áttu um opinberu rannsóknina á gjaldþroti Madison-sparisjóðsins, sem samstarfsmaður Clintonhjónanna í Whitewater-fyrirtækinu átti og rak. Síðar kom á daginn að alls höfðu verið haldnir um 40 fundir þessara aðila. Einn fundurinn var haldinn til þess að láta aðstoðarmenn forsetans vita að Clintonhjónin yrðu ef til vill kölluð til vitnis í rannsókninni á sparisjóðnum.

Frekari fórnir og hrókeringar?

Aðrir embættismenn sem þykja hafa beðið álitshnekki fyrir að reyna að vernda forsetann eru Jean Hanson, ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, sem er talin munu segja af sér innan tíðar, og Joshua Steiner, starfsmannastjóri ráðuneytisins, sem mun að öllum líkindum verða færður í annað starf. Þá er búist við breytingum á starfsmannahaldi í Hvíta húsinu, talið að Clinton þyki sem almenningur hafi ekki fengið rétta mynd af stjórn sinni. Að sögn heimildamanna verður Mark Gearan, boðskiptastjóra, líklega fengið annað starf, sem og Dee Dee Myers, fréttafulltrúa forsetans.

Roger Altman