Emirates býður farþegum ýmsan glaðning á Gatwick FARÞEGAR sem fljúga með Emirates á viðskiptamannafarrými til Gatwickflugvallar úr langflugi eiga von á glaðningi. Þar sem vélin lendir kl. 6.25 að morgni þótti þeim Emiratesmönnum við hæfi að gefa farþegum...

Emirates býður farþegum ýmsan glaðning á Gatwick

FARÞEGAR sem fljúga með Emirates á viðskiptamannafarrými til Gatwickflugvallar úr langflugi eiga von á glaðningi. Þar sem vélin lendir kl. 6.25 að morgni þótti þeim Emiratesmönnum við hæfi að gefa farþegum kost á tvennu: þeir geta valið um að fá ókeypis akstur frá flugvellinum og heim til sín - að vísu með einhverjum takmörkunum - eða fá dagherbergi á Forte Crest flugvallarhótelinu með morgunverði og síðan fyrsta klassa járnbrautarmiða til Viktoríu-stöðvarinnar.

Emirates hefur enn aukið hróður sinn með viðurkenningunni "Besta flugfélag til Miðausturlanda" sem ferðaritin Travel Trade Gazette og Travel News stóðu að. Þessi verðlaun voru veitt á Ferðahátíð hjá Universal í Hollywood nýlega.

Þetta eru 57. verðlaunin sem flugfélagið fær síðan það var sett á laggirnar 1985 og þau 16. á þessu ári. Eins og Ferðablaðið hefur skýrt frá var Emirates fyrr á þessu ári valið besta flugfélag í heimi af lesendum blaðsins Executive Travel. Þar með skaut það þjálfuðum verðlaunafélögum eins og Britosh Airways, Virgin Atlantic og Singapore Airlines ref fyrir rass.