Fjárhættuspil í háloftunum
FLUGFÉLAGIÐ British Airways stefnir að því að á næstu tveimur árum geti farþegar í langflugi spilað rúllettu, veðjað á hesta og verslað í aðskiljanlegum stórverslunum heims í háloftunum í gegnum sérhannaða myndskjái við hvert sæti. Með þessu er talið að BA taki forystu meðal flugfélaga í afþreyingu og upplýsingatækni. Í janúar verða skjáirnir fyrst reyndir á flugleiðum félagsins til Suður-Afríku, Austurlanda og austurstrandar Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í frétt frá Daily Telegraph.
Myndbandasýning eftir eigin þörfum er einnig nýjung, en þar getur farþeginn valið um mynd, horft á sum atriði aftur ef hann vill eða stoppað myndina á meðan hann fær sér blund og haldið áfram að horfa þegar hann vaknar.
Áætlanir voru um að ná sjónvarps- og útvarpssendingum í vélunum en erfitt er að ná þeim sendingum til hraðskreiðra farartækja. Vonast er til að sá vandi leysist á næstu fimm árum.