ÍTALÍA Rússarnir komnir til Rimini LEIÐTOGAR viðskiptalífsins í Rimini á Ítalíu sáu í fyrra fram á samdrátt í ferðamannaþjónustu vegna aukinnar samkeppni frá fjarlægum stöðum og efnahagserfiðleika í Evrópu og ákváðu að leita á ný mið eftir ferðamönnum.

ÍTALÍA Rússarnir komnir til Rimini

LEIÐTOGAR viðskiptalífsins í Rimini á Ítalíu sáu í fyrra fram á samdrátt í ferðamannaþjónustu vegna aukinnar samkeppni frá fjarlægum stöðum og efnahagserfiðleika í Evrópu og ákváðu að leita á ný mið eftir ferðamönnum. Rússland varð fyrir valinu. Hóteleigendur tóku upp samstarf við rússneskar ferðaskrifstofur og dásemdir Rimini voru auglýstar. Nú streyma Rússar í sólbað og verslunarferðir til Rimini. Búist er við að 15.000 Rússum þetta árið.

Ferðir fram í ágúst seldust upp. Tólf-daga ferð kostar tæpar 70.000 krónur. Það eru miklir peningar fyrir flesta Rússa. En margir borga ferðina upp með því að selja það sem þeir kaupa á Ítalíu á uppsprengdu verði þegar þeir koma aftur heim. Sumir fara í nokkrar ferðir, versla vel á verksmiðjusölum og koma með gróða út úr ferðunum.

Íbúar Rimini eru yfirleitt ánægðir með rússnesku ferðamennina. Þeir versla mikið og gefa gott þjórfé. Nokkrar konur hafa valdið vandræðum með því að bjóða sjálfar sig til sölu svo að þær geti verslað meira. Borgarstjóri Rimini hótaði að birta nöfn þeirra sem kaupa þjónustu kvennanna í blaði bæjarins. Ritstjórinn neitaði hins vegar að birta þau og sagði að lesendur blaðsins hefðu ekki áhuga á þeim. Rússneskar ferðaskrifstofur eru einnig ánægðar með viðskiptin. Nokkrar þeirra fullyrða þó að sum hótel noti sér reynsluleysi Rússanna og hreinsi herbergin ekki eins vel og fyrir víðreistari hótelgesti.

ab.