Leiðari SAMEIGINLEGIR HAGSMUNIR VÍ HEFUR verið haldið fram af hálfu norskra sendimanna á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York að íslenzka sendinefndin hafi horfið frá fyrri málflutningi sínum á ráðstefnunni og standi nú ekki lengur með...

Leiðari SAMEIGINLEGIR HAGSMUNIR

VÍ HEFUR verið haldið fram af hálfu norskra sendimanna á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York að íslenzka sendinefndin hafi horfið frá fyrri málflutningi sínum á ráðstefnunni og standi nú ekki lengur með svokölluðum kjarnahópi strandríkja. Norski sjávarútvegsráðherrann, Jan Henry T. Olsen, sendi Íslendingum skeyti úr ræðustóli á ráðstefnunni og sagði Smuguveiðar íslenzkra togara stríða gegn anda Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þegar betur er að gáð, eru hins vegar sömu almennu áherzlur í ávarpi Olsens sjálfs og ræðu Helga Ágústssonar sendiherra, formanns íslenzku sendinefndarinnar. Báðir leggja áherzlu á að víðtækt samkomulag náist á ráðstefnunni ­ sem er ekki sjálfgefið, því að sum ríki telja sér hag í því að stjórnleysi ríki í úthafsveiðum. Báðir eru talsmenn þess að smíðaður verði lagalegur rammi úthafsveiða, sem sé í formi bindandi samnings. Báðir kveða ríkt á um að markmið ríkja þeirra séu fiskvernd og ábyrg stjórnun auðlinda. Loks leggja báðir höfuðáherzlu á hagsmuni strandríkja. Þó er sá munur á, að íslenzki sendiherrann tekur sérstaklega fram að réttur strandríkja til að setja reglur á úthafssvæðum geti ekki verið einhliða. Norski ráðherrann lætur svo um mælt að Hafréttarsáttmálinn hafi tryggt fiskveiðistjórnun undir fullveldisrétti strandríkja, og að útfærsla lögsögu strandríkja í 200 mílur hafi verið "risaskref" ­ en þar fóru Íslendingar í fararbroddi og voru stórstígastir Norður-Atlantshafsþjóða.

Noregur og Ísland eiga sömu hagsmuna að gæta hvað varðar stjórnun fiskveiða á úthafinu. Það er báðum í hag að settar verði alþjóðlegar reglur, sem tryggja friðsamlega og hnökralausa sambúð nágrannaþjóða og vernd fiskistofna, sem þegnar beggja ríkja byggja afkomu sína á, þótt í mismiklum mæli sé. Að mörgu leyti eru fiskveiðiflotar ríkjanna í sömu aðstöðu og gagnar ekki að reyna að breiða yfir það; íslenzk skip veiða í Barentshafi utan norsku lögsögunnar og norsk skip eru til dæmis að karfaveiðum á Reykjaneshrygg, rétt fyrir utan lögsögu Íslands ­ og nota reyndar íslenzk flottroll við veiðarnar, þótt þau séu bönnuð í norskri landhelgi.

Það er þess vegna báðum ríkjum í hag að settar verði alþjóðlegar reglur um stjórn veiða á úthafinu. Á grundvelli sameiginlegrar afstöðu til slíkra reglna og innan ramma þeirra, ber ríkjunum að ganga til samninga, bæði um fiskveiðiheimildir í Barentshafi og veiðirétt norskra skipa á svæðum, sem liggja að íslenzkri lögsögu.

Íslenzk stjórnvöld hafa margoft gert lýðum ljóst að þau eru tilbúin til slíkra samninga. Norskir stjórnmálamenn, sem telja sig þurfa að bíta í skjaldarrendur til að tryggja stuðning fiskimanna í Norður-Noregi við aðild að Evrópusambandinu, ættu að hugsa sig betur um. Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að íslenzki flotinn í Smugunni geti veitt um 600 tonn af þorski á dag að meðaltali. Hvern dag, sem líður án þess að setzt sé að samningaborði og réttaróvissa ríkir áfram í Smugunni, eru norskir sjómenn að missa spón úr aski sínum, og líklegt er að íslenzki flotinn geti náð að veiða mun meiri þorsk en hugsanlegar umsamdar veiðiheimildir gætu numið. Norðmenn eiga því jafnmikilla hagsmuna að gæta og Íslendingar að gengið verði til samninga. Óbilgirni norskra stjórnmálamanna getur aðeins stefnt málinu í óefni.

EIRÍKUR

SKIPHERRA

INN AF merkilegri kapítulum Íslandssögu hefst með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins árið 1948 og lýkur með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur árið 1975. Meðal þeirra, sem hæst bar í sögu þessa tímabils, var Eiríkur Kristófersson, skipherra, sem lézt í hárri elli, 102 ára að aldri, 16. ágúst síðastliðinn.

Eiríkur Kristófersson hóf sjómennsku á morgni aldarinnar, árið 1907, og skilaði sextíu starfsárum á Íslandsmiðum. Hann vann hálfa öld við skipstjórn, þar af fjörutíu ár sem stýrimaður og skipherra hjá Landhelgisgæzlunni. Hann varð þjóðkunnur fyrir framgöngu sína í þorskastríðinu 1958-1961 og virtur vel, bæði af þeim erlendum mönnum, sem hann átti í höggi við, og löndum sínum. Hann átti hlut að björgun 640 skipa á starfsferli sínum sem stýrimaður og skipherra.

Með Eiríki skipherra er genginn nafntogaður afreks- og drengskaparmaður, sem lifði allar þjóðlífsbreytingar líðandi aldar og var í fylkingarbrjósti við vörzlu landhelginnar á örlagatímum. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum og hlaut að vonum fjölda viðurkenninga.

Morgunblaðið sendir aðstandendum hans hugheilar samúðarkveðjur.