VERKMENNTUN Sumarskóla Iðnskólans og Reykjavíkurborgar slitið í annað sinn Ekki kvöð að mæta á morgnana Atvinnu- og menntunarátak Iðnskólans í Reykjavík og Reykjavíkurborgar hefur endurspeglast í starfi Sumarskólans tvö síðustu ár.

VERKMENNTUN Sumarskóla Iðnskólans og Reykjavíkurborgar slitið í annað sinn Ekki kvöð að mæta á morgnana Atvinnu- og menntunarátak Iðnskólans í Reykjavík og Reykjavíkurborgar hefur endurspeglast í starfi Sumarskólans tvö síðustu ár. Aðstandendur skólans segja að þær breytingar sem gerðar voru á starfsháttum hans í ár hafi skilað sér en í fyrra olli tilraunin nokkrum vonbrigðum. Orri Páll Ormarsson var viðstaddur skólaslitin nú og heyrði hljóðið í nemendum og aðstandendum skólans sem eru afar ánægðir með afrakstur sumarsins.

eykjavíkurborg og Iðnskólinn hleyptu í fyrra af stokkunum átaki til að efla menntun og atvinnumöguleika ungs atvinnulauss fólks. Sumarskóli var settur á laggirnar og ungu fólki á aldrinum 16-20 ára stóð skyndilega til boða launað nám. Tilgangur þessa tilraunaverkefnis var margþættur. Fyrst og fremst var því ætlað að stemma stigu við atvinnuleysi en jafnframt að kynna iðngreinar og laða fólk sem ekki hafði spreytt sig á framhaldsnámi að skólunum. Forsvarsmenn Sumarskólans viðurkenna að fyrsta starfsár hans hafi valdið vonbrigðum. Brottfall nemenda varð mikið og þeir sem entust allt sumarið voru vanir framhaldsskólanemar en ekki atvinnulausi forgangshópurinn. Eðli málsins samkvæmt var starfsemi skólans því tekin til gagngerrar endurskoðunar í vetur sem leið og sú vinna virðist hafa borið ávöxt. Í það minnsta var allt annað hljóð komið í strokkinn við önnur skólaslit Sumarskólans sem fram fóru í gær.

Áherslum breytt verulega

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hefur annast skólahaldið fyrir hönd borgaryfirvalda. Kristín Njálsdóttir, fulltrúi ráðsins í skólastjórn, segir að ákveðið hafi verið að breyta áherslum verulega fyrir þetta misseri. Í fyrra hafi komið í ljós að þeir aðilar sem hrökkluðust frá námi voru þeir sem ekki voru vanir setu á skólabekk. Kristín segir að mikil áhersla hafi verið lögð á bóknám í fyrra og það hafi einfaldlega ekki höfðað til fjöldans. Hún segir að eftir umtalsverðar bollaleggingar hafi skólastjórn því gripið til þess ráðs að stytta námskeiðin, draga úr bóknámi og leggja höfuðáherslu á verklegar greinar. Þá mun aldurstakmarkið hafa verið hækkað í 25 ára. Afleiðingarnar segir hún vera þær að bróðurpartur þeirra nemenda sem hóf námið í vor hafi hlotið hámarkseiningafjölda að launum.

Að sögn Kristínar skiptist námið í sumar í þrjú þriggja vikna námskeið. Í stað þess að fá sumarnámið metið við hefðbundnar námsbrautir framhaldsskólanna eins og var í fyrra segir hún að nemendur geti nú nýtt þær einingar sem þeir höfðu upp úr krafsinu sem ótilgreint val. "Nemendur tóku engin próf heldur öðluðust þeir þær tvær einingar sem í boði eru fyrir hvert námskeið með því að sýna fram á 80% mætingu." Kristín segir að nemendur hafi fengið greiddar 30 þúsund krónur hafi þeir lokið við fyrsta námskeiðið, 35 þúsund fyrir það næsta og 40 þúsund fyrir hið síðasta. Hún segir að launagreiðslurnar á síðari námskeiðunum tveimur hafi verið háðar mætingu. "Ef nemendur mættu ekki var það dregið af laununum þeirra."

Sumarið góður tími til náms

Kristín segir að Iðnskólinn hafi hýst mikið af áhugasömu fólki í sumar. Rýmið hafi reyndar ekki verið fullnýtt en það hafi aðallega stafað af því að rúmlega tuttugu manns til viðbótar hafi verið skráðir en aldrei rekið nefið inn í gættir skólans. Hún segir að þessu hafi fylgt nokkur röskun. Fækka hafi þurft greinum þar sem áætlaður nemendafjöldi náðist ekki. Þá bendir Kristín á að sumir nemendur hafi horfið frá námi í miðjum klíðum til að fara í sumarleyfi með fjölskyldum sínum. Þrátt fyrir þetta segir Kristín að skýrt hafi komið fram í könnun sem gerð var meðal nemenda á dögunum að þeir teldu sumarið síst lakari tíma til að leggja stund á nám en veturinn.

Kristín er sannfærð um að það hafi verið rétt ráðstöfun að auka hlut verknámsins á kostnað bókanna. Meðal þeirra greina sem voru á boðstólnum hjá Sumarskólanum þetta árið voru málmiðn, tréiðn, háriðn, fataiðn, rafiðn, bílgreinar og matvælaiðn, sem naut mestrar hylli samkvæmt liðskönnun nemenda. Að sögn Kristínar nýttu nemendur námið til margvíslegra hagnýtra verka. Til að mynda hafi þeir snúið heim með skrifborð og grill í farteskinu svo eitthvað sé nefnt. Þá hafi nemendur í bílgreinum náð tökum á minniháttar viðgerðum, félagar þeirra í bókiðn gefið út blað og þannig mætti lengi telja. Ennfremur bendir Kristín á að fyrirlestrar og annað innlegg af ýmsu tagi sem ÍTR stóð fyrir hafi fallið í góðan jarðveg. Meðal þess sem boðið var uppá var sálfræði, heimspeki, dans, sund, listir og námskeið í hraðlestri sem Kristín segir að hafi slegið í gegn. Samkvæmt fyrrnefndri könnun hafa langflestir nemendur hug á að nýta sér námið á vinnumarkaðnum í framtíðinni.

Hugmyndir frá nemendum

Kristín er ekki í nokkrum vafa um að starfsgrundvöllur sé fyrir Sumarskólann í framtíðinni. Slíkar hafi undirtektirnar verið í sumar. Þá séu borgaryfirvöld, sem fjármagna starfsemina, öll af vilja gerð. Hún segir að í sumar hafi verið gefið út sérstakt námsefni fyrir sumarskólann og sé hugmyndin sú að bjóða upp á það víðar. Að sögn Kristínar er vel hugsanlegt að sumarnám sem þetta verði þegar fram líða stundir tekið upp á landsbyggðinni. "Hlutverk okkar aðstandendanna er að þróa skólann og gera hann eins skemmtilegan og hægt er. Við leggjum sérstaka áherslu á að fá hugmyndir frá nemendum sjálfum og erum staðráðin í að halda starfinu áfram meðan þörf krefur."

Þorkell Ágúst Óttarsson, Ragnheiður Harðardóttir, Helga Björk Stefánsdóttir og Sigurður Waage stunduðu öll nám við Sumarskólann í sumar. Þau ljúka sundur um það einum munni að framtakið sé lofsvert. Þar sem starfstíminn skiptist í þrjú tímabil gefst nemendum færi á að fá innsýn í þrjár greinar. "Það er gagnlegt að hafa tækifæri til að fá innsýn í margar ólíkar greinar," segir Helga Björk sem í sumar kynnti sér tölvur, bókiðn og matvælaiðn. Félagar hennar taka í sama streng og ljúka miklu lofi á fjölbreytileikann sem einkenndi skólann.

Ekki kvöð að mæta

Öll hafa þau hug á að nýta sér þá þekkingu sem námið í Sumarskólanum hefur fært þeim. Sigurður stefnir á nám í tréiðn í vetur og segir sumarnámskeiðið í greininni hafa komið í góðar þarfir. Helga Björk er á sama máli og segir að leiðsögnin í bókiðn komi til með að nýtast henni vel en hún nemur fjölmiðlafræði. Þorkell Ágúst telur fyrirkomulagið sem er við lýði í Sumarskólanum kjörið til eftirbreytni. "Það er mjög nytsamlegt að hafa þrjár vikur til að einbeita sér að sama efninu. Þar að auki hafa kennararnir meiri tíma til að sinna þörfum hvers og eins." Að hans mati er námið sem boðið er upp á afar frumlegt og segir hann ljóst að námskeiðunum sem kennd eru sem aukagreinar sé bersýnilega ekki eingöngu ætlað að fylla upp í tímann.

Fjórmenningarnir fullyrða að á heildina litið hafi nemendur við Sumarskólann fyrst og fremst verið þar áhugans vegna. Inn á milli hafi þó slæðst einn og einn sem einungis hafi hugsað sér gott til glóðarinnar fjárhagslega. Þeir sem mættu með því hugarfari til leiks hafi hins vegar heltst fljótt úr lestinni. Þessir fulltrúar nemenda eru á einu máli um að mun léttara hafi verið yfir Sumarskólanum en almennt tíðkist um framhaldsnám. Kannski eru orð Þorkells Ágústs lýsandi fyrir andann í þessu sumarstarfsnámi Iðnskólans og Reykjavíkurborgar? "Þetta er búið að vera mjög ánægjulegt. Það var ekki kvöð að mæta á morgnana heldur einfaldlega gaman!"

Morgunblaðið/Þorkell

SIGURÐUR Waage, Helga Björk Stefánsdóttir, Þorkell Ágúst Óttarsson og Ragnheiður Harðardóttir voru öll á meðal nemenda við Sumarskólann að þessu sinni.

Morgunblaðið/Þorkell

ÞÆR Helga Björnsdóttir, kennslustjóri og Kristín Njálsdóttir hjá Íþrótta- og tómstundaráði slíta samvistum við nemendur með trega og söknuði.

Morgunblaðið/Þorkell

SÝNISHORN af vinnu nemenda Sumarskólans. Nemendur í tréiðn fengu það verkefni að smíða borð á meðan félagar þeirra í málmiðn settu saman grill.

Höfuðáhersla á verklegar greinar

Skólinn býður upp á frumlegt nám