Greinargerð bankaeftirlits Seðlabankans vegna upplýsinga til fjölmiðla Leggur ekki mat á upplýsingagjöf greiðslukortafyrirtækja Sverrir Hermannsson segir fjölmiðla ekki eiga að fá neinar upplýsingar um viðskiptavini BANKAEFTIRLIT Seðlabanka Íslands hefur...

Greinargerð bankaeftirlits Seðlabankans vegna upplýsinga til fjölmiðla Leggur ekki mat á upplýsingagjöf greiðslukortafyrirtækja Sverrir Hermannsson segir fjölmiðla ekki eiga að fá neinar upplýsingar um viðskiptavini BANKAEFTIRLIT Seðlabanka Íslands hefur látið athuga meðferð greiðslukortafyrirtækja á trúnaðarupplýsingum og tekið saman greinargerð í kjölfar þess. Tilefni athugunarinnar er það að undanfarið hafa fyrirtækin látið fjölmiðlum í té upplýsingar sem lúta að notkun debetkorta í viðskiptum korthafa erlendis. Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, segir það hafa verið mistök sem eigi ekki að endurtaka sig.

Í greinargerðinni er tekið fram að bankaeftirlitið hafi ekki eftirlit með starfsemi greiðslukortafyrirtækjanna, að öðru leyti en því að því er heimilt að afla upplýsinga og framkvæma vettvangsathugun hjá fyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum, sem tengd eru viðskiptabönkum eða sparisjóðum, enda telji bankaeftirlitið það nauðsynlegt til að meta fjárhagsstöðu viðskiptabanka eða sparisjóða. Af þeim sökum hafi athugun bankaeftirlitsins beinst að því hvernig farið er með trúnaðarupplýsingar í samskiptum banka og sparisjóða við greiðslukortafyrirtæki.

Vita ekki um reikningsstöðu

Samkvæmt upplýsingum frá Greiðslumiðlun hf., Kreditkorti hf. og Reiknistofu bankanna, hafa greiðslukortafyrirtækin aðgang að upplýsingum um færslur vegna úttekta með debetkortum erlendis, enda fara þau viðskipti um þeirra tölvu- og samskiptakerfi. Þannig hafa greiðslukortafyrirtækin aðgang að upplýsingum um það hvenær og hvar debetkort er notað erlendis, hver hin tiltekna fjárhæð er og hver korthafinn er. Hins vegar hafa þau engar upplýsingar um reikninga sem liggja að baki debetkortum og því ekki aðgang að upplýsingum um stöðu þeirra. Við notkun debetkorts kemur þó fram hvort innstæða eða yfirdráttarheimild er fyrir umbeðinni fjárhæð á reikningi eða ekki.

Greiðslukortafyrirtækin hafa aðeins upplýsingar um heildartölur um viðskipti debetkorthafa hér á landi, þ.e. heildarveltu og færslufjölda.

Greiðslukortafyrirtækin hafa allar upplýsingar um stöðu og úttektarheimildir kreditkorta, enda eru þau viðskipti á þeirra vegum.

Fá aðeins nauðsynlegar upplýsingar

"Það er mat bankaeftirlitsins að greiðslukortafyrirtækin fái, samkvæmt framansögðu, aðeins í hendur þær upplýsingar frá viðskiptabönkum sparisjóðum og Reiknistofu bankanna, sem nauðsynlegar eru starfsemi þeirra. Bankaeftirlitið telur jafnframt að þær upplýsingar sem viðskiptabankar, sparisjóðir og Reiknistofa bankanna láta af hendi, séu ekki trúnaðarupplýsingar í skilningi laga nr. 43/1993 um meðferð þeirra af hálfu greiðslukortafyrirtækjanna. Þess má geta að starfsmenn þeirra hafa undirritað yfirlýsingu um þagnarskyldu.

Bankaeftirlitið vill hins vegar ekki leggja mat á þá upplýsingagjöf greiðslukortafyrirtækja til fjölmiðla sem áður er getið, enda myndi það falla utan starfsviðs þess, eins og áður er fram komið," segir í greinargerðinni.

Mistök sem eiga ekki að endurtaka sig

Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, segist gagnrýninn á það að fyrirtæki í eigu bankans láti fjölmiðlum í té trúnaðarupplýsingar, eins og gerst hefur, og vill að tekið verði fyrir það. "Það hafa verið gefnar aðvaranir um það því ekki er ætlast til þess að upplýsingar af neinu tagi um viðskiptavini okkar séu gefnar fjölmiðlum. Þetta voru að mínu viti mistök sem vonandi endurtaka sig ekki," segir Sverrir.