Hekla bólgnar út
HEKLA er að bólgna út. Þetta var upplýst, þegar jarðskjálftahrinan við Hveragerði hófst fyrir nokkrum vikum. Virkni við Hveragerði hefur fylgt Heklugosum, eftir gosið 1981 kom skjálftahrina þar og meðan á gosinu 1991 stóð og eftir það urðu jarðskjálftar við Hveragerði.
Það er vel þekkt að eldfjöll þenjist út áður en þau gjósa og hafa menn besta reynslu af því af Kröflugosum hérlendis. Gerðar voru mælingar fyrir nokkrum vikum á Heklu sem ekki hefur verið unnið úr enn og því of snemmt að segja til um hvort breytingarnar á fjallinu séu undanfari eldgoss. Þó er vitað að Hekla þandist út áður en hún gaus 1981 og 1991.