LÍU hvatt til að kalla skip úr Smugunni
ARVEID Veek, framkvæmdastjóri samtaka norskra útvegsmanna, sneri sér í gær til framkvæmdastjóra LÍÚ til að koma á framfæri þeirri skoðun að brýnt væri að koma á samningaviðræðum í deilu Íslendinga og Norðmanna um fiskveiðiréttindi í Barenteshafi. Arveid Veek sagði í samtali við Morgunblaðið eina skilyrðið sem Íslendingar þyrftu að uppfylla til að samningaviðræður geti hafist sé að kalla skip sín úr Smugunni.
Sveinn Hjörtur Hjartarson, starfandi framkvæmdastjóri LÍÚ, sagði í samtali við Morgunblaðið að LÍÚ fagnaði því að fram sé kominn vilji af hálfu Norðmanna til að ná samkomulagi, ekki síst þar sem frumkvæði komi úr röðum norskra útvegsmanna. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um líkur á því að íslenskir útvegsmenn kalli skip sín úr Smugunni en sagði að mál þetta yrði rætt á stjórnarfundi LÍÚ næstkomandi miðvikudag.
Ekki í valdi íslenskra stjórnvalda
Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra sagði við Morgunblaðið að það gæti ekki verið í valdi íslenskra stjórnvalda að kalla skip heim þar sem þau hefðu ekki yfir því að segja hvar skip stunduðu veiðar utan íslenskrar lögsögu.
Arveid Veek sagði að engir skildu betur vandamál íslenskrar útgerðar en norskir útgerðarmenn, sem á árum áður hafi staðið frammi fyrir aflaleysi og rekstrarerfiðleikum.
Fiskveiðideilan/6-7