Rútu bjargað úr Krossá Sigurður Rúnarsson, bílstjóri hjá Austurleið, dró rútu frá Guðmundi Jónassyni upp úr Krossá á rútu sinni í gær. Að sögn viðstaddra sýndi Sigurður mikið snarræði og kjark við björgunina.

Rútu bjargað úr Krossá Sigurður Rúnarsson, bílstjóri hjá Austurleið, dró rútu frá Guðmundi Jónassyni upp úr Krossá á rútu sinni í gær. Að sögn viðstaddra sýndi Sigurður mikið snarræði og kjark við björgunina. Sigurður segir að rúturnar tvær hafi farið hvor á eftir annarri yfir Krossá, hans rúta á undan. Á undan þeim hafði farið einsdrifsbíll og allt hafi virst í lagi með vaðið en þá hafi rútan fest. Hann fór strax í að reyna að ná henni upp, óð út í ána og kom taug í rútuna.

Gerðar voru ráðstafanir til að ná farþegunum í land ef illa færi og hafði til þess verið kallað í dráttarbíl sem Austurleið á og hefur til taks í Húsadal. Sigurður segir að farþegarnir hafi þess vegna aldrei verið í neinni verulegri hættu en þeir hafi hins vegar verið talsvert skelkaðir.

Sigurður segist hafa náð rútunni í tveimur atrennum, fyrst dró hann hana að landi og svo upp á bakkann á ská. Það tókst á rúmum 20 mínútum en á þeim tíma hafði áin grafið undan dekkjum rútunnar og hún var sest niður á grindina. Sigurður segir að Krossá sé það straumhörð að hún þurfi ekki langan tíma til að grafa alveg undan bílum sem stoppa í henni og endar þá með því að þeir leggjast á hliðina upp í strauminn.

Austurleiðir eru með áætlunarferðir í Þórsmörk og nota í þær sérútbúinn bíl sem Sigurður var á í gær. Hann ekur inn í Þórsmörk á nánast hverjum degi og lendir mjög oft í því að aðstoða ferðalanga. Hann segist ekki hafa tölu á því hvað hann er búinn að draga marga bíla upp úr ám í sumar. Það hafi þó ekki verið upp úr Krossánni heldur mest úr Steinsholtsá. Hún sé búin að vera leiðinleg í sumar en Krossáin frekar góð þótt hún sé djúp og grafin núna.

Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli var í bílnum með Sigurði. Hann segir að Sigurður hafi sýnt mikið snarræði, áræði og kjark við að ná hinni rútunni upp úr ánni. Sigurður sé þrælfrískur maður og fljótur að átta sig. Fyrir snarræði og dugnað hans hafi þetta farið vel og það hafi ekki mátt tæpara standa, enda sé Krossá mikið ólíkindatól.

Morgunblaðið/Arnar Guðmundsson

Hér er Sigurður bílstjóri að koma taug í rútuna sem sat föst í Krossá.

Þessi mynd er tekin út um gluggann á Austurleiðarútunni. Farþegarnir voru flestir eldri borgarar frá Þýskalandi, um 35 talsins, og voru þeir talsvert skelkaðir en þó aldrei í neinni verulegri hættu.