Samkeppnisráð óskar eftir rannsókn á bensínverðshækkuninni Verðlagsákvæði á bensín koma til álita SAMKEPPNISRÁÐ telur ýmislegt benda til þess að olíufélögin hafi haft ólöglegt samráð um tveggja króna hækkun á bensíni sem tók gildi í gær.

Samkeppnisráð óskar eftir rannsókn á bensínverðshækkuninni Verðlagsákvæði á bensín koma til álita

SAMKEPPNISRÁÐ telur ýmislegt benda til þess að olíufélögin hafi haft ólöglegt samráð um tveggja króna hækkun á bensíni sem tók gildi í gær. Í bókun sem samþykkt var á fundi ráðsins í gær segir að til álita komi að taka verðlagningu bensíns undir verðlagsákvæði á ný. Var Samkeppnisstofnun falið að afla gagna til að kanna hvort ástæða sé til íhlutunar af hálfu samkeppnisyfirvalda. Olíufélögin vísa því algjörlega á bug að um eitthvert samráð hafi verið að ræða. Forráðamenn þeirra segja að hækkunarþörf allra félaganna hafi ótvírætt verið fyrir hendi og þegar eitt félagið hafi látið til skarar skríða hafi hin fylgt á eftir. Þannig hafi bensínverð hækkað um 35 dollara tonnið á Rotterdammarkaði frá því um mánaðamótin apríl/maí. Verðhækkunin þýðir um 300 milljóna króna útgjaldaaukningu fyrir bíleigendur á ári, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Samkeppnisráð ræddi bensínhækkunina á fundi sínum utan dagskrár í gær. Í bókun ráðsins er vakin athygli á því að þegar verðlagsráð samþykkti að gefa verðlagningu frjálsa hafi sérstaklega verið tekið fram að fylgst yrði með því að ákvæðum laga um samkeppni yrði fylgt.

Georg Ólafsson, forstjóri Samkeppnisstofnunar, sagði í samtali við Morgunblaðið að það hefði legið fyrir þegar verðlagning á bensíni var gefin frjáls að hér væri um fákeppnismarkað að ræða. Til lengri tíma litið gæti því ekki verið mikill munur á milli fyrirtækjanna í verðlagningu. "Það hefur hins vegar gerst nær undantekningarlaust að verð á bensíni hefur hækkað samtímis hjá öllum félögunum. Það gefur vísbendingu um að um samráð geti verið að ræða.

Við gerum okkur grein fyrir því að það ríkir mikil samkeppni milli félaganna um aðra þætti en verðið. Þau virðast ekki sjá sér hag í því að keppa í verði vegna fákeppninnar á markaðnum. Samkeppnisstofnun mun athuga hvort það sé tilefni til íhlutunar en það yrði neyðarúrræði ef grípa þyrfti til slíkra ráðstafana."

Olíufélagið átti frumkvæðið.../14