Vatnabuffall á Álftanesi STÆÐILEGUR vatnabuffall mótaður í steinsteypu hefur vakið athygli íbúa í nágrenni við Austurtún á Álftanesi upp á síðkastið.

Vatnabuffall á Álftanesi

STÆÐILEGUR vatnabuffall mótaður í steinsteypu hefur vakið athygli íbúa í nágrenni við Austurtún á Álftanesi upp á síðkastið. Heiðurinn af listaverkinu á tælenskur maður, Som Sawangjaitham, sem er staddur hér á landi til að heimsækja dóttur sína og tengdason. Að sögn tengdasonarins, Boga Jónssonar, er vatnabuffall tákn styrkleika á Tælandi. Hann segir að Som sitji sjaldan auðum höndum og því hafi þetta verið tilvalið verkefni í sumarleyfinu. Að steypunni undanskilinni hafði listamaðurinn einungis netgrindur og pappahólka sér til fulltingis við gerð verksins.

Á myndinni eru Som Sawangjaitham og kona hans frú Thongbai Sawangjaitham frá Nakhon Pathom í Tælandi. Buffallinn heitir "Kadingthong", sem þýðir gullbjalla. Herra Sawangjaitham gerir gjarnan slík listaverk, þegar hann kemur í heimsókn til ættingja sinna, fremur en skrifa í gestabók.

Morgunblaðið/Sverrir