Bæjarmál 1944 SÝNINGIN Leiftur frá lýðveldisári ­ bæjarmál 1944 var opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, á afmælisdegi Reykjavíkurborgar. Forseti borgarstjórnar, Guðrún Ágústsdóttir, opnaði sýninguna formlega og sagði m.a. að gildi svona sýninga væri mikið...

Bæjarmál 1944

SÝNINGIN Leiftur frá lýðveldisári ­ bæjarmál 1944 var opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, á afmælisdegi Reykjavíkurborgar. Forseti borgarstjórnar, Guðrún Ágústsdóttir, opnaði sýninguna formlega og sagði m.a. að gildi svona sýninga væri mikið þar sem þær sýndu fram á gildi þess að varðveita skjöl og ljósmyndir frá daglegu lífi okkar. Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, tók undir orð Guðrúnar og hvatti stofnanir borgarinnar til að mynda daglegt líf á stofnunum þar sem slíkar myndir væru ómetanleg gögn.

Sýningin fjallar um starfsemi Reykjavíkurbæjar og bæjarmál lýðveldisárið 1944 með ljósmyndum, eftirgerð skjala og textum. Það var Lýðveldisnefnd Reykjavíkur sem átti frumkvæðið að sýningunni en það er nefndin ásamt Borgarskjalasafni Reykjavíkur og Ljósmyndasafni Reykjavíkurborgar sem standa að sýningunni.

Sýningin gefur innsýn í bæjarbrag í Reykjavík árið 1944 og kennir þar ýmissa grasa. Á sýningunni má m.a. lesa kaupsamning Reykjavíkur við Strætisvagna Reykjavíkur hf., en fyrirtækið varð að bæjarfyrirtæki 1944. Auk þess má lesa kvörtunarbréf frá Útvegsbankanum vegna pylsuverslunar í Kolasundi og eru forsvarsmenn ekki par hrifnir af svöngum viðskiptavinum verslunarinnar.

Morgunblaðið/Magnús Fjalar

GESTIR skoða sýninguna Leiftur frá lýðveldisári ­ bæjarmál 1944 í Ráðhúsinu í Reykjavík.