Glæsilegur fiðluleikur TÓNLIST Listasafn Sigurjóns Ólafssonar SAMLEIKUR Á FIÐLU OG PÍANÓ Sigrún Eðvaldsdóttir og Selma Guðmundsdóttir.

Glæsilegur fiðluleikur TÓNLIST Listasafn Sigurjóns Ólafssonar SAMLEIKUR Á FIÐLU OG PÍANÓ Sigrún Eðvaldsdóttir og Selma Guðmundsdóttir. ÞÓTT Sigrún Eðvaldsdóttir hafi ekki unnið til fyrstu verðlauna í tónlistarkeppninni í Moskvu, er hún óumdeilanlega glæsilegur fiðluleikari, skaprík með svellandi tónlistargáfur, mikla tækni, frábært hljóðfæri og hrífandi framkomu. Miskunnarlaus undirbúningur fyrir keppnina í Moskvu er kannske nú að koma fram, því henni hefur fleygt fram að undanförnu, tónöryggið meira og leikur hennar allur agaðri og voru tónleikarnir að þessu sinni þeir bestu sem undirritaður hefur heyrt frá hendi Sigrúnar.

Þegar um mikinn efnivið er að ræða verður manni á að ætlast til þeirra afreka sem ekkert fær staðist og hrífur mann bjargarlaust upp úr skónum. Hvað vantar á til að svo megi verða? Svarið við því er vandfundið. Japanir eru frægir fyrir hárnákvæm vinnubrögð og tækniundur. Um leið og þeir vilja fullkomnun í hvert smáatriði eru þeir farnir að velta því fyrir sér hvort slík gerilsneyðing geti verið hættuleg lífsvon verksins. Þetta er að vísu ekki nein ný speki, en spurningin virðist alltaf vera til staðar, en um leið og þessi hætta er fyrir hendi hlýtur einnig að vera til andstæða, þ.e. að of mikið frelsi, of mikil ónákvæmni, geti einnig yfirspilað lífsvonina. Kennari nokkur sagði einu sinni við nemanda sinn, "það sem skemmir fyrir þér er að þú ætlar þér alltaf að vera númer eitt". Vitanlega er slík afstaða nemandans hættuleg um leið og hún er ekki forkastanleg. Slíkur er línudans listsköpunar og þessu erum við sjálfsagt öll að velta fyrir okkur lífið út.

Efnisskráin. Janácek, organistinn og hljómsveitarstjórinn, er kannske frægastur fyrir óperur sínar, utan heimalandsins a.m.k. Fiðlusónatan er, að ég held, eina fiðlusónata hans og sem hann umskrifaði nokkrum sinnum. Þótt form sónötunnar styðjist við klassík, er stíllinn nokkuð úr hinum og þessum áttunum og því ekki auðvelt að halda þáttunum saman. Þótt margt væri glæsilega spilað, fannst mér einnig að sumstaðar væri yfirspilað, að látleysi hefði betur hentað heildinni. Kannske er það þetta sem Sigrún þarf að hafa taumhald á, að yfirspila ekki, þótt stundum minni það kannske á Paganini djöfsa og systur hans. Af slavnesku dönsunum þrem, eftir Dvorak, í úts. Kreislers, var sá þriðji í G-dúr sérlega fallega spilaður, enda hélst þar allt í skefjum. Sónatan eftir Ravel er kannske ekki ennþá fullmótuð. Undirritaður hefði kosið meiri mýkt, meiri ljóðrænu, meira legato í fyrsta þáttinn, meira glizz og meiri blús í annan þáttinn og síðasti þátturinn er slíkt ófyrirgefanlegt tækniverk að spila þarf án nótnablaða. Aukalag, eftir rússneskan höfund, lék Sigrún af brilljans, og þá sprakk húsið. Leit listamannsins er endalaus sjálfsgagnrýni, áheyrandinn bíður, þannig heldur það áfram. Selma fylgdi Sigrúnu vel, en óþarflega hlédræg fannst mér sú ágæta píanistinja.

Ragnar Björnsson