Kraftaverk í Kaplakrika Hafliða Kristinssyni: FYRIR rúmum fimm árum vorum við hjónin á ferð um Orlandoborg í Flórída. Í starfi okkar á vegum Fíladelfíusafnaðarins höfum við kynnst mörgum góðum söfnuðum víðs vegar um heiminn. Þessa daga okkar í Orlando bættist enn einn í hópinn.
Við höfðum í nokkur ár heyrt talað um ungan mann, sem starfaði í svipuðum dúr og lækningaprédikarinn þekkti Kathryn Kuhlman, en tvær bóka hennar voru gefnar út hér á landi fyrr á árum. Þessi ungi maður var nefndur Benny Hinn og þótti starf hans afar merkilegt. Við vissum að í Orlando hefi hann stofnað nýjan söfnuð og þangað streymdi fólk víða að. Þar sem við vorum í nágrenninu ákváðum við að fara á eina samkomu.
Þegar við komum að kirkjunni, rétt fyrir áætlaðan samkomutíma á sunnudagskvöldi, voru öll 3.000 sætin þegar upptekin og allmargir stóðu. Það varð því hlutskipti okkar næstu þrjár klukkustundirnar að standa og taka þátt í afar merkilegri samkomu. Þarna ríkti mikil gleði og eftirvænting og mikið var sungið af bæði eldri sálmum og yngri lofgjörðarkórum. Við tókum þátt og fundum okkur vel heima í þessum stóra hópi kristinna systkina, sem öll komu saman til að gleðjast í sameiginlegri trú og væntu merkilegra hluta af hendi Drottins.
Eftir drjúgan samsöng og bænir kom Benny Hinn upp á sviðið og talaði Guðsorð til safnaðarins. Að því loknu fór hann að biðja fyrir sjúkum, beygðum og brotnum. Þegar við lesum Guðspjöllin og Postulasöguna, þá taka frásagnir af kraftaverkum hvers konar stóran hluta af sögunni. Þannig var þessari samkomu háttað. Það var óumdeilt að margir hlutu lækningu meina sinna, hvort sem þau mein voru andleg, sálarleg eða líkamleg. Um varanleika þessara lækninga bera vitni fjölda vitnisburða þeirra sem látið hafa rannsaka líðan sína eftir samkomur þessar og fengið staðfestingu á kraftaverki Guðs.
Það er nokkuð áberandi á samkomum þessum að fólk fellur í gólfið, að því er virðist fyrir krafti Heilags Anda. Þannig varð þessi samkoma okkur nokkuð framandi á ýmsan hátt. En það kom ekki í veg fyrir að við nytum alls þess góða sem var að gerast. Einnig tókum við eftir hversu lifandi og frjáls prédikarinn var í allri sinni framgöngu. Og þótt við eigum ýmsu að venjast úr starfi okkar hvítasunnumanna þá var þessi ungi maður með allra frjálsasta móti. En það hindrar okkur ekki í því að sjá undur og tákn eiga sér stað um allan þennan stóra sal.
Við fórum af þessari samkomu uppörfuð, fagnandi og óþreytt eftir þriggja klukkustunda stöðu. Við fórum líka vitandi, að fyrir hvern þann sem hlaut bót meina sinna, fóru álíka margir, eða fleiri, sem enn þurftu að bíða sinnar lækningar. Hvenær hún kemur verður stærsta ósvaraða spurningin frá þessum merkilegu dögum okkar í Orlando. En sú spurning sem Guð svaraði okkur á þessari stundu var um raunveruleika kraftaverkanna í dag. Þetta eru ekki hlutir sem eingöngu voru ætlaðir frumsöfnuði kristinna í árdaga, þetta er hluti af von hins kristna manns í dag. Guð hefur áhuga á allri veru mannsins, andlegri jafnt sem líkamlegri. Sú von verður ekki frá okkur tekin.
Benny Hinn á ættir að rekja til Ísraels, en þar átti hann heima lengi framan af ævi sinni. Hann fluttist til Kanada ungur maður og síðan til Bandaríkjanna. Hann hefur verið afar eftirsóttur prédikari um allan heim og það var því mikið lán að fá hann hingað í boði Omega þó ekki væri nema þetta eina sunnudagskvöld í ágústmánuði. Hann mun tala á samkomu í íþróttahúsinu í Kaplakrika sunnudaginn 21. ágúst nk. kl. 20. Þar vona ég að margir landa okkar fái mætt Guði sínum, bæði til anda, sálar og líkama.
HAFLIÐI KRISTINSSON,
forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins, Reykjavík.
Benny Hinn að störfum.