GUÐLAUG EIRÍKSDÓTTIR Guðlaug Eiríksdóttir, fyrrverandi húsfreyja á Ormsstöðum í Breiðdal, er 100 ára í dag. Guðlaug var yngst sex barna þeirra Sigríðar Bjarnadóttur frá Viðfirði og Eiríks Jónssonar, bónda á Hlíð í Lóni og síðar í Papey. Eiríkur tók sig upp frá föðurleifð sinni og stórbúi á Hlíð og fluttist út í Papey að læknisráði. Heilsu hans hrakaði þó þar og lézt hann eftir tveggja ára dvöl í Papey. Papeyjarárin urðu fjölskyldunni á ýmsan hátt örðug sökum heilsuleysis húsbóndans.
Sigríður amma treystist ekki til þess að halda búskapnum áfram að manni sínum látnum og fjölskyldan sundraðist. Uppvaxtarár þeirra systkina urðu því um margt á annan veg en vænzt hafði verið.
Öll komust þau til þroska og urðu hinar nýtustu manneskjur. Þótt efnunum væri ekki fyrir að fara, hlutu þau systkin góða menntun. Guðlaug stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands, lærði hannyrðir og var í leikfimistímum. Var m.a. valin í stúlknaflokk, sem fyrst mun hafa sýnt fimleika (stúlkna) opinberlega í höfuðstaðnum.
Síðan forframaðist hún í kóngsins Kaupmannahöfn og minntist með ánægju áranna þar. Eftir heimkomuna gekk hún að eiga Brynjólf Guðmundsson frá Þverhamri í Breiðdal. Lengst af bjuggu þau á Ormsstöðum, en hófu búskap á Kambsseli í Geithellnadal. Brynjólfur lézt 1975 eftir 57 ára farsælt hjónaband.
Þau eignuðust 5 börn. Guðmundur, elztur þeirra systkina, lézt af slysförum á bezta aldri. Systurnar Sigríður, Guðný, Gyða og Guðrún vitja móður sinnar á þessum merkisdegi.
Guðlaug, föðursystir mín, er einstaklega elskuleg og viðkunnanleg kona, sem ég kynntist þó ekki fyrr en ég var orðinn rígfullorðinn. Mér finnst mikill fengur í þeim kynnum. Það var gott og gaman að hitta Guðlaugu að máli, enda konan viðræðugóð í betra lagi, margvís og langminnug.
Hún er nú farin að heilsu og dvelzt á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar þar sem vel er að henni hlúð.
Ég hygg að frænka mín elskuleg þurfi ekki að kvíða þeirri stund, er hún kemur fyrir hinn æðsta dóm að leiðarlokum.
Ég sendi henni kærar kveðjur í tilefni dagsins.
Eiríkur Bjarnason.