Guðbjörg Elín Guðnadóttir - viðb GÓÐ vinkona mín til margra ára, Guðbjörg Elín Guðnadóttir, "Bubba" er látin eftir löng og erfið veikindi. Kynni okkar hófust fyrir meira en 35 árum. Þá var ég unglingur en hún ung, nýgift kona. Við störfuðum saman í lítilli verslun við Skólavörðustíg.

Frá byrjun tók hún mér ákaflega vel og stóð heimili þeirra hjóna, hennar og Gests Magnússonar, mér ávallt opið. Það var oft gaman hér á árum áður, þau voru ákaflega gestrisin og mikið gleðinnar fólk sem hafði gaman af að dansa og skemmta sér, einkanlega voru gömlu dansarnir í uppáhaldi. Þá var Gestur oft dansherra okkar beggja.

Eftir nokkurra ára barnlaust hjónaband auðnaðist þeim sú hamingja að eignast litla telpu sem Berglind heitir. Hún hefur verið sólargeisli foreldranna og fært þeim ómælda gleði. Berglind er í sambúð með Víði Péturssyni og á hún tvo syni.

Bubba vann á allnokkrum stöðum áður en hún missti heilsuna fyrir rúmum tíu árum. Eftir það hafði hún ávallt mikla löngun til að geta starfað og látið gott af sér leiða, en það gat ekki orðið sökum heilsuleysis hennar. Hún fékkst nú samt svolítið við sölumennsku á bókum og blöðum símleiðis. Hún hafði styrka og fallega rödd sem hafði góð áhrif á viðmælendur.

Gestur og hún byggðu sér fallegt sumarhús undir Valshamri í Eilífsdal í Kjós. Þar undu þau hag sínum vel, einkum fann hún þar frið og hvíld hin síðari ár, eftir að veikindin ágerðust. Þau hafa ræktað með blíðum höndum hrjóstugar hlíðar svo úr eru gróðarsælar brekkur.

Foreldrar Bubbu eru bæði látin, þau hétu Guðni Hjálmarsson og Kristbjörg Sigurðardóttir. Bubba var yngst fimm systkina sem öll lifa hana.

Öll þau ár sem við höfum verið vinkonur hefur hún fylgst með mér og fjölskyldu minni og sýnt okkur ræktarsemi og umhyggju. Vil ég þakka henni það.

Gesti, eiginmanni hennar, sem sýnt hefur einstaka mildi og styrk í veikindum hennar votta ég mína innilegustu samúð og einnig Berglindi dóttur hennar og fjölskyldu allri.

Valdís Bjarnadóttir.