Guðbjörg Elín Guðnadóttir - viðb Þegar æviröðull rennur rökkvar fyrir sjónum þér hræðstu eigi, Hel er fortjald hinum megin birtan er. Höndin sem þig hingað leiddi himins til þig aftur ber. Drottinn elskar - Drottinn vakir daga og nætur yfir þér.

(Sigurður Kr. Pétursson.)

Mig langar með nokkrum orðum að minnast systur minnar Guðbjargar Elínar Guðnadóttur sem lést á Borgarspítalanum 10. ágúst síðastliðinn. Við vitum að með hverju árinu sem líður, styttist okkar jarðneska vist, og nær dregur kveðjustund. Þó erum við aldrei viðbúin þegar dauðinn knýr dyra. Bubba, eins og við kölluðum hana, gekk ekki heil til skógar síðustu árin. Þrátt fyrir erfið veikindi átti þessi kona reisn og styrk sem sæmt hefði hverri drottningu. Bubba hefði ekki viljað að menn legðust í víl sín vegna heldur litið hlutina björtum augum. Hún hafði gaman af lífinu, þótt bratt væri stundum, og hafði gaman af öllum mannlegu í kringum sig. Á kveðjustund koma margar minningar fram í hugann. Ótal stundir sátum við öll saman í eldhúsinu og ræddum um heima og geima, og var oft glatt á hjalla. Ýmis smáatriði sem hafa gleymst í dagsins önn rifjast upp og veita gleði. Þetta eru kærar endurminningar sem verma hjartað. En efst í huga mér er þakklæti fyrir samverustundirnar sem ekki gleymast, hlý orð og óskir á tímamótum, gamanyrði á gleðistundum og huggunarorð á erfiðleikastundum. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hvernig Bubba og Gestur stóðu saman í blíðu og stríðu og studdu hvort annað á hverju sem gekk. Elsku Bubba, við vitum að þú hefðir gjarnan viljað fá að njóta lífsins lengur, og fá að fylgjast með dóttur þinni Berglindi og litlu ömmubörnunum þínum. En Guð einn ræður. Mikið á ég eftir að sakna þessarar yndislegu systur minnar sem var mér svo góð. Elsku Gestur, þótt þú eigir á brattan að sæka nú um stund, þá veit ég að styrkur þinn og minning um mæta konu munu hjálpa þér yfir erfiðasta hjallann. Við, ástvinir hennar, sameinumst í bæn til almáttugs Guðs um að hann gæti hennar vel og leiði hana á hinni miklu ferð, á leið til ljóssins. Því þar á hún heima.

Blessuð sé minning hennar.

Hjálmrún Guðnadóttir.