Guðrún Matthíasdóttir - viðb Í dag verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju mín ástkæra amma Guðrún. Þar sem ég bý erlendis hafði ég ekki séð ömmu Guðrúnu síðan um jól. Var því mikil tilhlökkun hjá okkur hjónum að hitta hana hressa og káta að vanda, enda voru hún og konan mín orðnar sérstakar vinkonur. Þegar við komum til landsins fréttum við að amma hefði verið veik í nokkra daga. Eftir að hafa hitt hana var okkur eiginlega létt, þar sem hún bar sig vel og afskaði sig með því að segja að sér þætti verst að hafa ekki valið betri tíma til að fá flensu, en einmitt þegar við kæmum í okkar árlegu sumarheimsókn frá útlöndum. Ekki hvarflaði það að okkur að veikindi hennar væru það alvarleg að hún mundi kveðja okkur meðan við værum hér í mánaðarfríi.
Amma Guðrún var alveg sérstök amma og langar mig til að minnast hér á nokkur atriði það varðandi. Ég er elstur barnabarna ömmu og var því um alllangt skeið "einn í sviðsljósinu" hjá henni. Það var ekki amalegt að hafa hana einn og út af fyrir sig. En er árin liðu, fjölgaði barnabörnunum og ég varð að deila ömmu með þeim. Hélt ég að mér félli það miður, en með ótrúlegri snilld tókst henni að hafa okkur öll í sviðsljósinu í einu svo að áhyggjur mínar voru því óþarfar. Amma sagði mér frá unga aldri alltaf meiningu sína um mig og hegðun mína og fannst mér hún á stundum nokkuð kröfuhörð. Hún sagði mig sem elsta barnabarnið sitt eiga að vera fyrirmynd. Hún var einnig mjög sanngjörn, því ef henni fannst hún hafa gengið of langt í uppeldishlutverkinu, gerði hún ávallt gott úr því eins og henni einni var lagið. Amma var í senn bæði köld og ákaflega blíð. Oft gat ég fundið í samtölum við hana að lífið er ekki bara dans á rósum eins og hún hafði fengið að finna fyrir á Siglufirði fyrir 36 árum, þegar hún missti sína stóru ást og næstyngsta barnið sitt í húsbruna. Það var ótrúlega mikið á hana lagt, en með miklum dugnaði og þrautseigju tókst henni að læra að lifa með sorginni og söknuðinum, þó hún næði sér aldrei að fullu. Þrátt fyrir það var hún lífsglöð kona og var mjög gjarnan meðal fólks og góður þátttakandi í samkvæmum. Þar var hún oftast hrókur alls fagnaðar. Fyrir hana voru hin ýmsu tungumál eða þjóðerni engin hindrun fyrir að hafa gaman af samskiptum við fólk. Mér er t.d. mjög minnisstætt að í brúðkaupi mínu úti í Póllandi, lék hún við hvern sinn fingur og var ófeimin við að umgangast ókunnugt fólk og gerði það að vinum sínum á svipstundu, þrátt fyrir skort á sameiginlegu tungumáli. Fyrir hana sagði viðmót oft meira en mörg orð.
Amma var alveg dásamlegur gestur vegna þess að hún gerði sig strax mjög heimakomna og átti þá oft til að breyta lítillega uppstillingu ýmissa hluta í íbúðinni eftir eigin smekk. Fannst okkur þetta tiltæki hennar bara vinalegt og létum hlutina standa þannig meðan á dvöl hennar stóð. Það var einnig mjög gaman að sýna henni nýja hluti en þá helst úr bíl. Ég held að ég hafi aldrei kynnst nokkurri menneskju sem hafði jafn gaman af því að sitja í bíl og hún amma Guðrún. Henni fannst það hrein unun að fara í góðan bíltúr og þá var ekki svo mikilvægt hvert. Þetta vissi ég og fór þá bæði hérlendis og erlendis, ekki endilega stystu leiðina á milli staða. Ekkert hafði hún heldur á móti því að koma við á kaffihúsi og fá sér kaffi og e.t.v. koníak sér til hressingar. Eins og áður er getið um, var hún mjög gjarnan meðal fólks og hafði jafnframt ekki síður gaman af því að fá gesti í heimsókn. Fengu t.d. tengdaforeldrar mínir heldur betur að kynnast því sl. sumar, er þau dvöldust hér í tvær vikur og voru gestir hennar. Höfðu þau varla kynnst annari eins gestrisni og voru að vonast eftir henni í heimsókn til Póllands til þess að geta endurgoldið henni móttökurnar.
Að lokum vil ég minnast á gjafmildi ömmu, engum afmælisdegi gleymdi hún og það var með ólíkindum hvað allar gjafir hennar voru úthugsaðar. Við sem nutum þessa vorum oftast orðlaus. Hún tjáði mér það einu sinni að eitt það skemmtilegasta sem hún gerði væri að fara í bæinn að kaupa gjafir til að gleðja aðra.
Elsku amma mín, svona gæti ég lengi haldið áfram, því margar ánægjustundirnar átti ég með þér, sem því miður verða ekki fleiri, en minningin lifir um einstæða ömmu.
Bestu kveðjur fyrir alla vinsemd þína frá konu minni, Beötu. Hvíl þú í friði.
Gísli Jón Matthíasson.