Guðrún Matthíasdóttir - viðb Það var síðsumarsól um allan sjó og ég, fjögurra ára pattinn, ríghélt í móður mína hræddur við Fljótið, en við mamma á leið með Baldri út Eyjafjörð til að heimsækja frændfólk okkar á Siglufirði. Mér væri eflaust horfin úr minni hræðsla mín við Eyjafjörð, sem ég þá taldi Fljótið, enda aldrei áður á sjó komið, ef ég hefði ekki oft verið minntur á þetta allt fram á þennan dag. En enginn hefur þurft að minna mig á móttökurnar á Siglufirði sem ég að vísu man einungis sem sæla minningu barnsins. Mildi og hlýju frænku minnar í minn garð sem ég naut alla daga síðan. Mildi og hlýja áþekk síðsumarsólinni. Þannig er mín fyrsta minning um Guðrúnu móðursystur mína, Lillu frænku.
Hún giftist ung Gísla Stefánssyni og þau stofnuðu til heimilis á Siglufirði þar sem þau ráku hótelið Hvanneyri og síðar hótelið Höfn. Það var enn uppgangur á Siglufirði og ærinn starfi ungri konu að ganga til starfa með manni sínum á hótelinu samtímis að halda heimili manni og fjórum börnum. Gísla og Stefán frænda minn sá ég aldrei. Nóttina eftir fimmta afmælisdag Stefáns kom upp eldur í hótelinu og þeir feðgar fórust báðir. Þessa sumardaga mína á Siglufirði var Lilla ein, með Matta, Stellu Grétu og Gunna.
Mikil örlög móta. Hvernig veit ekki sá sem ekki hefur reynt. En þau geta líka bugað og eytt. Lilla reyndi að endurreisa hótelreksturinn, en það voru breyttir tímar. Fjölskyldan reyndi af öllum mætti að styðja við bakið á henni, mest foreldrar hennar langa ævi beggja, en amma lifir dóttur sína 94 ára gömul. Matti, Stella Gréta og Gunni voru oft hjá okkur austur á Egilsstöðum og ég og systur mínar höfum jafnan litið á þau sem systkini.
Lilla flutti síðan til Reykjavíkur, bjó í mörg ár í Garðabæ en síðustu árin að Maríubakka 26 í Reykjavík. Hún var hárgreiðslumeistari og starfaði við þá iðn sína í Þjóðleikhúsinu og á hárgreiðslustofu fyrstu árin, en síðan við verslunarstörf, lengst af í Bókabúð Lárusar Blöndal þar sem hún starfaði óslitið þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrir þremur árum.
Hún sóttist ekki eftir vegtyllum en vann störf sín af samviskusemi og ósérhlífni. Hún bar höfuðið hátt og gat á stundum virkað framhleypin, en þar fór einungis stolt kona með erfðir kjarkaðs alþýðufólks. Hún var skemmtileg, söngelsk og gestrisin. Heima fyrir var hún ætíð dálítil hótelstýra og aldrei ánægð ef hún bauð í mat nema setið væri á öllum stólum. "Serveringin" gekk rösklega og þóttust gestir oft góðir að ná mat sínum öllum áður en diskar voru komnir af borðum. Ég og systur mínar bjuggum hjá henni, mislengi þó, þann tíma sem við gengum í skóla í Reykjavík og hennar hús var alltaf okkar annað heimili. Ég átti Lillu bæði að frænku og vini. Ég átti þar vísa vist að nóttu sem degi og trúnað hennar allan. Sjálf fór hún hljótt með sínar hugsanir. Nú eru börnin hennar öll löngu komin með fjölskyldur og barnabörnin sjö, en næstelsta barnabarnið, Sigurður Steinar Matthíasson, dó ungbarn. Ég heimsótti Lillu frænku á sjúkrahúsið tveimur dögum áður en hún skildi við. Ég bað hana um að lifa, en hún hlaut að deyja. Hún vissi að það var engra úrbóta að leita. Æðruleysi hennar var mér ekki í huga þegar ég kvaddi hana, það var svo sjálfgefinn hluti af henni.
Ólafur Jónsson.