Gísli Sigurgeirsson - viðb Í dag kveðjum við elskulegan afa okkar, Gísla Sigurgeirsson, frá Hausthúsum. Fyrir rúmu ári kvöddum við elskulega ömmu okkar, Auðbjörgu Bjarnadóttur, og langar okkur að minnast þeirra hjóna með fáum orðum. Við systurnar áttum því láni að fagna að eiga ömmu og afa í sveit sem alltaf var gaman að koma til. Nokkrum sumrum af barna- og unglingsárum okkar eyddum við í Hausthúsum. Um leið, og jafnvel áður en skóla lauk, vorum við komnar í sauðburð og eggjatínslu. Ýmislegt lærði maður af afa og ömmu, má sem dæmi nefna að í sveitinni tókst manni fyrst að komast í gegnum heila sögubók sjálfur. Amma hélt manni alltaf við efnið og gerði bóklestur áhugaverðan. Hjá afa snérist lífið mikið um hesta, hann kenndi okkur að sitja hest og við fórum marga skemmtilega reiðtúra saman á klárunum, Litla-Rauð og Reyk. Oft var glatt á hjalla í gamla bænum, kvöldunum var stundum eytt í spilamennsku, sem gat verið mjög fjörug, eða rólegheit fyrir framan sjónvarpið. Þar dottaði afi hálft kvöldið og amma þuldi þolinmóð upp söguþráðinn þar sem hann hafði misst úr, auk þess sem hún prjónaði. Þegar við hugsum til baka í sveitina, eru ferðirnar út í eyjar mjög eftirminnilegar, og áður en lagt var af stað í þær passaði amma upp á að nóg nesti væri með og allir væru vel klæddir.

Við erum mjög þakklát fyrir að hafa kynnst ömmu og afa svona vel og við kveðjum þau með söknuði.

Þú komst og fórst með ást til alls, sem grætur,

á öllu slíku kunnir nákvæm skil.

Þín saga er ljós í lífi einnar nætur

eitt ljós, sem þráði bara að vera til.

Ó, minning þín er minning hreinna ljóða,

er minning þess, sem veit hvað tárið er.

Við barm þinn gréru blómstur alls þess góða.

Ég bið minn Guð að vaka yfir þér.

(Vilhjálmur frá Skáholti.)

Blessuð sé minning ykkar.

Þórunn og Drífa

Magnúsdættur.