ÞÓRA SNÆDAL Þóra Guðný Jónsdóttir Snædal fæddist að Brautarholti, Vopnafirði, 5. október 1910. Hún lést 12. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jón Halldórsson Snædal, Fagradal, Vopnafirði, og kona hans, Ragnhildur Rannveig Einarsdóttir Snædal, ættuð úr Suðursveit. Systkini hennar voru Halldór Vilhelm Júlíus, hálfbróðir af fyrra hjónabandi föður hennar, og alsystkin Einar Benedikt, Óskar Sigurjón og Helga María. Frá Vopnafirði fluttist Þóra með foreldrum sínum þriggja ára gömul til Eskifjarðar. Þar bjó fjölskyldan á ýmsum stöðum, m.a. í Skuld og í Bröttuhlíð. 29. nóvember 1929 giftist Þóra eiginmanninum, Jóni Kristni Guðjónssyni frá Kolmúla. Hjónin eignuðust 12 börn og eru 9 þeirra á lífi: Ranghildur, Guðjón Einar, Jón Snædal, Gísli, Guðni Þór, Kristín Selma, Auðbergur, Þorvaldur og Helga Ósk. Einn dreng, Illuga Kristin, misstu þau sjö ára gamlan og tvær stúlkur misstu þau við fæðingu. Afkomendur Þóru og Jóns eru nú komnir á annað hundrað.