Guðbrandur Jón Herbertsson fæddist 15. júlí 1946. Hann lést 12. apríl 2014. Jarðsett var 22. apríl 2014.

Þann 22. apríl sl. var hann Nonni, eins og hann var alltaf kallaður, borinn til grafar. Nonni var vinur allra, sem mér eins og mörgum öðrum þótti einstaklega vænt um því betri mann var vart að finna. Nonni kom nær daglega til okkar í Landsbankann í kaffispjall og mikið söknum við hans. Hann átti kannski ekki mikið af veraldlegum eigum en annað átti hann dýrmætara og það var heiðarleiki og ljúfmennska. Börn hændust að honum og eiga margir krakkar góðar minningar um Nonna sinn. Hann heimsótti okkur næstum því daglega í Landsbankann á Tálknafirði, hann kom í kaffisopa til okkar í smá spjall um allt og ekkert og eitt er víst að aldrei heyrði ég Nonna tala illa um nokkurn mann, það var ekki hans stíll og stundum sátum við bara og þögðum. Í lok þessara heimsókna gerðum við Nonni það oft að gamni okkar að kveðjast með virktum og hneigðum okkur hvort fyrir öðru og hlógum í hvert skipti. Það var ekki erfitt að fá Nonna til þess að hlæja, hann var mjög hláturmildur, oft fór fólk hjá sér þegar honum fannst eitthvað fyndið í kringum sig og þá sagði hann „ég er ekkert að hlæja ég hósta bara svo mikið núna,“ þá hló fólk bara með, það var ekki hægt annað. Meðan ég skrifa þetta hef ég mynd af honum þar sem hann er brosandi og með húfuna sem Olga systir hans gaf honum, en húfan er eins og sú sem bókarpersóna Sveik í Góða dátanum Sveik klæddist, bók þessi var biblía hans, hann las hana reglulega aftur og aftur enda vitnaði hann oft í hana. Ég brosi alltaf að setningunni okkar, þegar mér fannst ég þurfa að standa upp eftir kaffispjall og fara að vinna sagði ég stundum: „Þetta gengur ekki,“ þá sagði Nonni: „Þú ert eins og síldarkaupmaðurinn sem snéri sér á hina hliðina og sofnaði aftur,“ og benti mér á að þessi fleygu orð væru neðarlega á blaðsíðu 82 í bókinni góðu. Að mörgu leyti var Nonni líkur góða dátanum því hann vildi alltaf gera gott úr öllu, vegna þess að það var bara til kærleikur í sál hans og hjarta og smá þrjóska fylgdi með.

Fallið lauf, eftir sit ég hljóð, tárin falla. Ég stari í kertalogann, það er þögn í hjarta mínu, ég bið í hljóðri bæn, bið fyrir þér, bið fyrir ykkur.

Eitt skarð enn,

ég rétti fram hönd mína.

Kveiki á kertum horfi á logann

hugsa í þögninni.

Enn og aftur falla tárin,

allt er hljótt,

eitt lauf enn hefur fallið

af fallega trénu.

(Solla Magg)

Elsku vinur, ég kveð þig með söknuði og vona að þér líði sem allra best. Ég veit þú ert í góðum höndum hjá pabba þínum og mömmu og fjölskyldu Nonna sendum við hjónin okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Birna Sigurbj.

Benediktsdóttir.