Gleði Agnar Smári Jónsson og Theodór Sigurbjörnsson fagna sigrinum á Haukum í leikslok. Þeir eru lykilmenn í fyrsta meistaraliði ÍBV í karlaflokki.
Gleði Agnar Smári Jónsson og Theodór Sigurbjörnsson fagna sigrinum á Haukum í leikslok. Þeir eru lykilmenn í fyrsta meistaraliði ÍBV í karlaflokki. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Ívar Benediktsson iben@mbl.

Á Ásvöllum

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Þar sem hjartað slær, þjóðhátíðarlagið 2012 ásamt fleiri lögum og lagleysum var sungið svikalaust af á annað þúsund Eyjamönnum í leikslok á Ásvöllum í gærkvöld eftir að ÍBV vann Hauka, 29:28, í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Það var e.t.v. við hæfi að þessu stórkostlega einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn lyktaði með sömu úrslitum og í fyrsta leiknum, nema hvað nú var sigurliðið annað en þá. ÍBV varð þar með Íslandsmeistari í fyrsta sinn í karlaflokki. Og aftur brustu Eyjamenn í söng um þar sem hjartað slær þegar Íslandsbikarinn fór á loft áður en þeir tóku undir Freddy Mercury og félögum í lagi sigurvegarans.

Eyjamenn komu syngjandi og þeir fóru syngjandi. Þeir komu eins stormsveipur inn í úrslitakeppnina og unnu Val eftir að hafa lent undir, 2:1. Þeir léku sama leikinn gegn Haukum. Sú staðreynd segir meira en mörg orð um þá seiglu sem í ÍBV-liðinu býr.

Ekki bara kom lið ÍBV inn í úrslitakeppnina eins og stormsveipur. Stuðningsmenn þeirra léku sama leikinn. Þeir hafa unnið hug og hjörtu margra og eiga svo sannarlega stóran þátt í þessum Íslandsmeistaratitli ásamt leikmönnum liðsins og þjálfurunum Gunnari Magnússyni og Arnari Péturssyni.

Hávaðinn og hitinn var mikill í keppnishöllinni nokkru áður en leikurinn hófst enda orðið þéttpakkað í húsinu löngu áður en flautað var til leiks. Og þegar upphafsflautið gall þá hitnaði enn frekar. Stemningin var frábær, ein sú allra magnaðasta sem um getur á handboltaleik. Svona stemning skapast aðeins í þéttskipuðu íþróttahúsi á handboltaleik. Frábært. Stuðningsmenn beggja liða eiga heiður skilinn auk forsvarsmanna Hauka fyrir að skapa umgjörð og stemningu, sem seint verður leikin eftir hér á landi. Allir voru komnir til skemmta sjálfum sér og öðrum, jafnt utan vallar sem innan og drógu hvergi af sér.

Eyjamaðurinn Agnar Smári Jónsson gaf tóninn þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins eftir 1,02 mínútur og hvort lið hafði þá átt eina misheppnaða sókn.

Það skiptust á skin og skúrir en staðan var jöfn, 15:15, í hálfleik. Haukar byrjuðu síðari hálfleik betur og komust fjórum mörkum yfir, 22:18. Þeir sem töldu Eyjamenn af á þeim tímapunkti höfðu rangt fyrir sér.

Engu munaði engu að þakið á íþróttahúsinu lyftist í fagnaðarlátunum er Theodór Sigurbjörnsson kom ÍBV yfir með marki úr vítakasti, 23:24. Allt ætlaði um koll að keyra. Haukar svörðu um hæl með tveimur mörkum og komust yfir. Áfram leiddust liðin eins og sætt par á fagurri sumarnótt.

Róbert Aron Hostert kom ÍBV yfir, 28:27, þegar tvær mínútur voru eftir og hafi einhvern tímann verið látið heyra í sér í leiknum, þá varð það þá. Já, það heyrðist ekki mannsins mál. Stemningin var rafmögnuð 38 sekúndum fyrir leikslok þegar ÍBV tók leikhlé í jafnri stöðu, 28:28. Agnar Smári, sem skoraði fyrsta mark leiksins, kórónaði frábæran leik sinn með því að skora sigurmarkið 22 sekúndum fyrir leikslok af línu þegar hann náði frákastinu eftir að Morkunas hafði varið skot hans. Haukar hófu sókn sem þeim tókst ekki að ljúka með viðunandi markskoti.

Dansinn tók við hjá Eyjamönnum og menn sungu svikalaust „bikarinn til Eyja, bikarinn til Eyja“ milli þess sem skotið var inn í „ÍBV!“.

Til hamingju, Eyjamenn. Takk fyrir, leikmenn ÍBV og Hauka.

Haukar – ÍBV 28:29

Schenkerhöllin Ásvöllum, fimmti úrslitaleikur karla, fimmtudag 15. maí 2014.

Gangur leiksins : 0:1, 3:2, 4:5, 6:7, 7:10, 9:12, 11:14, 13:15, 15:15 , 17:15, 18:18, 22:18, 23:24, 25:24, 26:25, 26:27, 27:28, 28:28, 28:29 .

Mörk Hauka : Sigurbergur Sveinsson 12/3, Einar Pétur Pétursson 5, Jón Þorbjörn Jóhannsson 5, Adam Haukur Baumruk 3, Árni Steinn Steinþórsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1.

Varin skot : Giedrius Morkunas 13/1, Einar Ólafur Vilmundarson 1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk ÍBV : Agnar Smári Jónsson 13/1, Róbert Aron Hostert 6, Grétar Eyþórsson 3, Theodór Sigurbjörnsson 3/2, Magnús Stefánsson 2, Andri Heimir Friðriksson 1, Sindri Haraldsson 1.

Varin skot: Kolbeinn A. Ingibjargarson 11, Haukur Jónsson 1.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson.

Áhorfendur : 2.400.

*ÍBV vann 3:2 og er Íslandsmeistari.

M oggamaður leiksins

Agnar Smári Jónsson Hann gaf tóninn með fyrsta marki leiksins og átta í fyrri hálfleik í níu skotum. Agnar bætti fimm mörkum við í síðari hálfleik, þar á meðal sigurmarkið. Kórónaði frábæra frammistöðu í úrslitakeppninni.