Hagnaður Landsbankinn í Austurstræti er í reisulegu húsi.
Hagnaður Landsbankinn í Austurstræti er í reisulegu húsi. — Morgunblaðið/Golli
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 4,3 milljörðum króna og lækkaði um tæplega helming frá því á sama tíma fyrir ári.

Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 4,3 milljörðum króna og lækkaði um tæplega helming frá því á sama tíma fyrir ári.

Í afkomutilkynningu frá bankanum segir að minni hagnaður skýrist fyrst og fremst af lækkun á vaxtamun, lækkun tekna eigna sem eru færðar á markaðsvirði og hærri sköttum. Á móti hafi hins vegar orðið jákvæð virðisbreyting útlána og hreinar þjónustutekjur hækkað um 1,5 milljarða króna miðað við fyrsta fjórðung árið 2013.

Hreinar vaxtatekjur bankans lækka umtalsvert milli ára og námu þær 7,9 milljörðum króna borið saman við 9,9 milljarða árið áður. Helsta ástæðan fyrir þessu er að dregið hefur úr verðbólgu milli tímabila en verðtryggðar eignir Landsbankans eru ríflega 154 milljörðum meiri en verðtryggðar skuldir bankans.

Vegna lækkunar á tekjum þá hækkar kostnaðarhlutfall bankans fyrstu þrjá mánuði ársins úr 43,9% í 72%. Almenn rekstrargjöld hafa hins vegar nánast staðið í stað milli ára en að teknu tilliti til verðbólgu þá nemur raunhækkun rekstrarkostnaðar 3,3%.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta dróst saman um næstum helming og nam 7,3% samanborið við 14% fyrir sama tímabil árið 2013. Eiginfjárstaða bankans er þó sterk en hann er með 24,8% eiginfjárhlutfall og var eigið fé 225,4 milljarðar í lok mars 2014.

Í tilkynningu er haft eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að „afkoma Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi ársins [sé] viðunandi í ljósi þess að vaxtamunur lækkaði töluvert og verðþróun á markaði var óhagstæð.“ Dregið hafi úr vanskilum samfara batnandi efnahag.