[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Hann er búinn að hreinsa upp þessi unglingamet og árangur hans lofar mjög góðu.

Frjálsar

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Hann er búinn að hreinsa upp þessi unglingamet og árangur hans lofar mjög góðu. Hann kemur vel undan vetri og er mjög vel stemmdur fyrir sumarið,“ sagði Einar Vilhjálmsson, ólympíufari og nú þjálfari, um lærisvein sinn Sindra Hrafn Guðmundsson. Sindri setti glæsilegt Íslandsmet í spjótkasti, í flokki 18-19 ára, í fyrrakvöld á Kastmóti ÍR er hann kastaði 71,85 metra. Hann bætti þar með fimm ára gamalt met Arnar Davíðssonar um tæpan metra á fyrsta móti sumarsins, sem er frábær árangur, og Sindri á talsvert meira inni að sögn Einars.

„Það kom alveg í ljós strax á fyrstu mældu æfingunni í maí að hann gæti gert hvað sem væri – að hann ætti inni bætingu sem kom í gær. Hann var samt engan veginn að toppa sig í þessu kasti og aðstæður voru ekkert sérstakar þannig séð,“ sagði Einar.

Með kasti sínu kom Sindri sér í hóp þeirra Íslendinga sem keppa á HM 19 ára og yngri í Eugene í Bandaríkjunum í júlí. Þar keppa einnig Aníta Hinriksdóttir í 800 metra hlaupi og Hilmar Örn Jónsson í sleggjukasti. Fleiri gætu bæst í hópinn en það er ljóst að þetta þríeyki er til alls líklegt á mótinu, í keppni við þá bestu í sínum aldursflokki.

„Hann setur stefnuna hátt og er búinn að horfa til HM í Eugene í vetur. Það er ofsalega góð tilfinning að vera búinn að bæta árangur sinn í vorverkunum. Við teljum nú að keppnistímabilið sé í raun ekki hafið þannig að í gær var engin uppáskrift að ná svona árangri núna,“ sagði Einar. En hvað telur hann að Sindri geti þá kastað langt þegar líður á sumarið?

Kast sem dygði í úrslit á HM?

„Sindri stendur þannig miðað við aldur að við getum þess vegna horft 15 ár fram í tímann. Við stefnum ekki á neina ákveðna vörðu núna en Sindri sjálfur horfir til þess að komast í úrslit á HM í Eugene. Kast upp á það sem hann náði núna þykir mér mjög líklegt að myndi duga til þess en þó var þetta engan veginn toppkast hjá honum,“ sagði Einar og ítrekaði að árangurinn væri engin tilviljun, Sindri hefði til að mynda átt annað kast upp á 68 metra í seríunni sinni í fyrrakvöld.

Hugsanlegt er að Sindri keppi næst á Selfossi um helgina, á fyrsta mótinu í mótaröð Frjálsíþróttasambandsins. Á næstunni taka svo við kastmót Ármanns og vormót ÍR en allt miðast við að Sindri sé upp á sitt besta á HM og því er æfingaálagið meira nú en síðar í sumar.

Sindri, sem keppir fyrir Breiðablik, er einnig handhafi Íslandsmetsins í flokki 16-17 ára en því náði hann af tónlistarmanninum Ásgeiri Trausta á sínum tíma. Hann er hluti af góðum efniviði Íslands í spjótkastinu en áhugamenn um frjálsíþróttir bíða sjálfsagt spenntir eftir að sjá hvernig t.d. Guðmundi Sverrissyni vegnar í sumar, eftir að hafa kastað 80,66 metra á Meistaramóti Íslands í fyrra.

Mikil gróska í spjótkastinu

„Spjótkastið er í svakalega flottum gír hjá okkur. Þeir hafa verið að vinna saman Sindri, Guðmundur Sverrisson hjá ÍR, Örn Davíðsson hjá FH og Dagbjartur Jónsson hjá ÍR. Það er enginn félagarígur til í spjótkastinu,“ sagði Einar sem vinnur náið með þeim fjórum. Hann segir mikla sókn í spjótkastinu.

„Guðmundur er búinn að ná inn á EM í Zürich. Hjá honum byrjar tímabilið í raun í lok júní þó að hann keppi á mótum sem hluti af undirbúningstímabilinu. Dagbjartur [fæddur 1997] er á fleygiferð og bætti sig um fimm metra í gær [fyrrakvöld], og svo eru enn yngri strákar að gera frábæra hluti eins og Styrmir [Dan Steinunnarson] á Selfossi. Greinin hefur verið mjög vinsæl á undanförnum árum og ný kynslóð að beina spjóti sínu vel,“ sagði Einar.