[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Ægisson sae@sae.is Norðan- og sunnanmenn, 60 ára og eldri, eða þar um bil, hafa í rúman áratug komið saman einu sinni á ári, eftir að snjóa hefur tekið að leysa á vorin, og att kappi við taflborðið yfir helgi. Nú síðast fyrir viku,...

Sviðsljós

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Norðan- og sunnanmenn, 60 ára og eldri, eða þar um bil, hafa í rúman áratug komið saman einu sinni á ári, eftir að snjóa hefur tekið að leysa á vorin, og att kappi við taflborðið yfir helgi. Nú síðast fyrir viku, 10. og 11. maí.

Upphafsmaður að þessu var Birgir Sigurðsson, prentari og skákfrömuður. Hann var um tíma landsliðmaður í skák og ritstjóri tímaritsins Skákar og var gerður að heiðursfélaga Skáksambands Íslands 2013.

Fyrst var keppt árið 2003

„Já, þetta hófst árið 2003,“ segir Þór Valtýsson, höfuðpaur þeirra norðanmanna.

„Birgir Sigurðsson hringdi þá í mig og spurði hvort við ættum ekki einhverja nyrðra til að glíma við sunnanmenn í hinni fornu og göfugu íþrótt og listgrein. Og við auðvitað slógum til. Við byrjuðum á Akureyri 2003, svo fórum við til Reykjavíkur 2004, og þannig var þetta til skiptis allt þar til var ákveðið að hittast á Blönduósi 2009, þ.e.a.s. mætast nokkurn veginn miðsvæðis, og þar vorum við á hótelinu, tefldum, mötuðumst og gistum.

Síðan æxlaðist það þannig að Karl Steingrímsson útvegaði okkur þetta pláss hér, í veiðiheimilinu Flóðvangi í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, en það er í eigu Veiðifélags Vatnsdalsár, og þar höfum við hist síðan, allt frá 2010. Hann á heiðurinn af því. Hann og kona hans sjá um húsnæðið og matinn, meðan á þessari dvöl okkar stendur.“

Viss kjarni mætir alltaf

Ekki er alltaf um sömu einstaklinga að ræða í liðunum, en samt er þar gegnumgangandi viss kjarni, einkum meðal norðanmanna, enda ekki úr eins stórum hópi að velja þar, eins og gefur að skilja. Þar fyrir utan takmarkar húsnæðið fjöldann. Ekki geta fleiri en 22-24 komist í þetta ævintýri í einu.

Lið norðanmanna var þannig skipað núna: Ásbjörn Guðmundsson, Áskell Örn Kárason, Haki Jóhannesson, Haraldur Haraldsson, Jón Þ. Þór, Karl Steingrímsson, Ólafur Kristjánsson, Sigurður Eiríksson, Sigurður Ægisson, Sveinbjörn Sigurðsson og Þór Valtýsson.

Og í liði sunnamanna voru: Björgvin Víglundsson, Einar S. Einarsson, Garðar Guðmundsson, Gísli Árnason, Guðfinnur R. Kjartansson, sem jafnframt var mótsstjóri, Gunnar Kr. Gunnarsson, Jón Steinn Elíasson, Jón Úlfljótsson, Kristján Guðmundsson, Páll G. Jónsson, Sæbjörn G. Larsen og Sævar Bjarnason.

Einar S. Einarsson er nú foringi sunnanmanna, hefur tekið við keflinu úr hendi Birgis Sigurðssonar, sem lést 22. apríl síðastliðinn.

Á laugardeginum eru tefldar 15 mínútna skákir, í A- og B-riðli, og um kvöldið er svo slegið upp opnu hraðskákmóti, með þeim sem vilja, svona til að hita upp fyrir alvöruna sem er á sunnudeginum, þar sem norðan- og sunnanmenn glíma í 7 mínútna hraðskákum.

Norðanmenn höfðu betur í ár

Að þessu sinni voru 6 í A-riðli og 5 í B-riðli í lengri skákunum. Norðanmenn unnu þann fyrri 18,5 gegn 17,5 og þann síðari með 19 vinningum gegn 11.

Eins fór með hraðskákina, þar sem tefldar voru 11 umferðir; norðanmenn fengu 73,5 vinninga, en sunnanmenn 47,5.

„Þessi samkoma hefur verið afskaplega vel heppnuð og menn ánægðir, alveg frá upphafi,“ segir Þór. „Við unnum með nokkrum yfirburðum núna. Þetta var miklu jafnara í fyrra. Og oft hafa sunnanmenn tekið okkur í bakaríið, sérstaklega þegar við höfum teflt í Reykjavík. En við höfum þó unnið oftar.“