— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Hlutabréfaeign í HB Granda hafði langmest að segja um að fjárfestingartekjur TM hafa aukist mikið á milli ára, segir Sigurður Viðarsson forstjóri. Þetta kom fram á afkomufundi í gær.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Hlutabréfaeign í HB Granda hafði langmest að segja um að fjárfestingartekjur TM hafa aukist mikið á milli ára, segir Sigurður Viðarsson forstjóri. Þetta kom fram á afkomufundi í gær. TM hefur lengi átt hlut í HB Granda, en bókfært virði í bókum TM hækkaði í kjölfar skráningar útgerðarinnar á Aðalmarkað Kauphallarinnar fyrir skömmu.

Hagnaður TM var 700 milljónir króna á fyrsta fjórðungi og jókst um 34% á milli ára. Aukningin skýrist fyrst og fremst af fjárfestingarstarfsemi. Fjárfestingartekjur námu 741 milljón króna á fjórðungnum, en voru 469 milljónir á sama tíma fyrir ári. HB Grandi er stærsta fjárfestingareign TM og var eignin metin á 2,7 milljarða í bókum félagsins. Matið er byggt á skráningargengi útgerðarinnar, auk þess sem tekið var tillit til arðgreiðslu á öðrum fjórðungi.

Eigin iðgjöld drógust saman um 4,5% á milli ára. Sigurður sagði að það mætti m.a. rekja til þess að TM hefði misst stóra viðskiptavini vegna þess að keppinautar buðu betra verð, vegna viðskiptaafsláttar og að félagið tryggði margar útgerðir. Sökum brælu hefðu skip verið mikið við bryggju og greitt þar af leiðandi minni tryggingar.

Hann sagði að sókn TM erlendis, sem byggist á samstarfi við erlenda vátryggingarmiðlara, hefði gengið eftir áætlun. Samdrátturinn í tekjum væri hér á landi. Sóknin erlendis byggist á að því að félagið er með styrkleikamatið BBB- frá matsfyrirtækinu Standard & Poor's.

Aðspurður á fundinum um hindranir í vegi fyrir vexti erlendis sagði Sigurður að TM væri íslenskt og nær óþekkt erlendis. Styrkleikamatið BBB- gæfi TM færi á að keppa erlendis en það jafnaðist ekki á við það besta. Hann sagði að TM hefði t.d. misst viðskiptavin þegar hann var endurfjármagnaður því nýi viðskiptabankinn vildi að fyrirtækið væri tryggt hjá félagi með betra styrkleikamat.