Sigþór Sigþórsson fæddist á Akureyri 15. júlí árið 1960. Hann lést á líknardeild Landspítalans 26. apríl 2014.

Sigþór var sonur hjónanna Auðar Antonsdóttur, f. 5. apríl 1932, og Sigþórs Valdimarssonar, f. 27. nóvember 1931, d. 3. mars 1977. Sigþór var yngstur fjögurra systkina. Elstur er Anton Sigþórsson, f. 25. febrúar 1952, maki: Noojeen Saraphat. Synir þeirra eru Aron Rósinberg og Andri Rósinberg. Þá er Valdimar Hallur, f. 22. janúar 1955, maki: Guðrún Ósk Sæmundsdóttir. Þeirra börn eru Haraldur Birgir, Auður Ösp, Sigþór Már og Elínrós. Þá átti Sigþór systurina Þorbjörgu Auði, gifta Sigurði Hafberg. Þeirra börn eru Íris Dröfn, Sævar Jens og S. Hannibal.

Sigþór var í sambandi með Hermanni Þór Jónssyni frá árinu 1989 til 1997.

Sigþór ólst upp á Akureyri. Hann var stúdent frá Iðnskólanum á Akureyri og rennismiður frá Vélsmiðjunni Atla árið 1984. Sama ár flutti hann til Odense í Danmörku þar sem hann bjó til ársins 1987. Þá flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann bjó til dauðadags. Sigþór vann ýmis störf lengst af fyrir Samtökin 78.

Útför Sigþórs hefur farið fram í kyrrþey.

Þegar við lítum yfir hóp samkynhneigðra félaga okkar hættir okkur stundum til að stara um of á fólkið sem skipar sér í framvarðarsveitina, en gleymum fótgönguliðinu sem fylgir fast á eftir. Án þess hefðu engir sigrar unnist og engin hreyfing verið merkjanleg. Því það er fótgönguliðið, þessi lítt sýnilegi hópur, sem myndar aflið sem skiptir máli í hverri þeirri grasrótarhreyfingu sem sækir á brattann.

Einn sá þrautseigasti í þeim hópi var Sigþór. Hann birtist fyrst í félagsmiðstöð Samtakanna ´78 á Lindargötu 49 kvöld eitt árið 1987 og sagðist nýkominn að norðan.

Í vikunni þar á eftir var hann farinn að taka til hendinni, byrjaður að þrífa, mála og smíða og nokkru síðar var hann sestur í stjórn félagsins og orðinn gjaldkeri þess. Því starfi gegndi hann í fimm ár og vann það einstaklega vel. Ekki var þó framlagi hans þar með lokið því að í tvo áratugi sinnti hann margvíslegum störfum á vettvangi Samtakanna ´78, kom að verkefnum á skrifstofu félagsins milli þess sem hann hélt uppi fyrri iðju, að smíða, mála, þrífa og taka á móti þeim sem komu í fyrsta sinn á vettvang. Hann vissi allt um það hve fyrstu skrefin inn í hópinn geta verið erfið og var laginn við að mæta nýjum gestum á þeirra forsendum. „Það er hagur félagsins að þeir komi aftur,“ sagði hann af þeirri diplómatísku hyggju sem honum var eiginleg. Og þegar Sigþóri fannst sig skorta verkefni á vettvangi síns gamla félags leitaði hann lengra til að veita athafnaseminni útrás og var árum saman ötull liðsmaður félagsins MSC Ísland þar sem hommar komu saman og ræktuðu fjörugan félagsskap. Þar varð hann að sjálfsögðu líka gjaldkeri, málari, smiður og gestgjafi. Ekki er öll sagan sögð því að hann var líka einn af brautryðjendum Hinsegin daga í Reykjavík og vann það meðal annars sér til ágætis að smíða fyrstu vagnana sem ekið var niður Laugaveg í Gleðigöngunni á árum áður.

Sigþór Sigþórsson var hlýr og glaðsinna að upplagi og hjálpsemi hans við brugðið. Skoðanir hans voru skýrar og einarðar en hann forðaðist að blanda sér í deilur hvunndagsins sem fylgja jafnt mannréttindahreyfingum og öðrum. Það var eins og hann fyndi á sér að margt af okkar mannlegu erjum er ekki kraftanna virði. „Ég ræð því sjálfur hvort ég er í góðu skapi eða ekki,“ sagði Sigþór þegar hann sá ástæðu til að láta fjaðrafok félaga sinna fram hjá sér fara. Það mottó er varla eins einfalt og það hljómar, en segir margt um þann ásetning Sigþórs að gera það besta úr því lífi sem honum var gefið.

Ekki var það alltaf auðvelt því að árum saman átti hann við erfiða sjúkdóma að stríða og það leyndi sér ekki hin seinni ár að kraftarnir fóru þverrandi.

Fyrir hönd hópsins sem var Sigþóri samferða á miklum umbrota- og framfaratímum þakka ég honum dýrmætt framlag hans til hreyfingar hinsegin fólks á Íslandi. Hans er gott að minnast.

Þorvaldur Kristinsson.

Siddi var, frá því ég man eftir mér, uppáhaldsfrændi okkar systkinanna og á milli hans og mömmu var alla tíð náið samband sem við vorum þátttakendur í.

Mér fannst hann svalasti frændinn þegar ég var lítil, frændinn sem hafði búið í útlöndum, unnið á McDonalds, átt mann en ekki konu. Það var alltaf jafn spennandi að fara að hitta hann enda var hans líf mjög ólíkt mínu. Eftir því sem ég eltist kynntist ég honum betur og þrátt fyrir að við hittumst ekki mjög oft eða heyrðumst þá var hann áfram uppáhaldsfrændinn. Hann var góður vegna þess að hann var svo einlægur. Hann var einn af þeim sem allt vita og gaf manni ráð hvort sem maður vildi þau eða ekki. Hann var ótrúlega fróður, handlaginn og klár og ég er ekkert að ýkja þegar ég segi að hann var alltaf með svör á reiðum höndum. Stundum algerlega óþolandi en oftast nær dásamlegur. Hann þoldi ekki væl og gerði óspart grín að manni ef honum fannst farið yfir strikið í þeim efnum. En hann var líka hlýr og það var alltaf jafn ljúft að fá knús frá honum þegar við hittumst. Ég á eftir að sakna hans og vona heitt og innilega að hann eigi gott líf hvar sem hann er niðurkominn núna.

Hvíl í friði, elsku frændi.

Þín frænka

Íris.