Hildur Jónsdóttir fæddist 4. desember 1947. Hún lést 18. apríl 2014. Útför Hildar fór fram 6. maí 2014.

Fyrir hönd samtakanna POWERtalk á Íslandi vil ég minnast með þökk og virðingu Hildar Jónsdóttur. Hildur starfaði með samtökunum í rúm 20 ár og gegndi mörgum trúnaðarstörfum af kostgæfni innan samtakanna, sem áður hétu Málfreyjur á Íslandi og ITC, International Training in Communication.

Hildur gekk til liðs við samtökin á 50. fundi deildarinnar Hörpu í Reykjavík. Frá þeim tíma vann hún ötult starf bæði við að byggja sjálfa sig upp en ekki hvað síst að hjálpa og styðja við bakið á félögum í deildinni.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast Hillu bæði í vinnu og einnig í starfi innan Hörpunnar. Hún hvatti mig og studdi og það var ekki hægt annað en að fyllast krafti og áhuga með hana sér við hlið.

Hildur var traustur félagi og alltaf tilbúin til að rétta hjálparhönd þegar til hennar var leitað. Hún var einn af stofnfélögum í „Grand Ladys“ eða deildinni Ísafold þar sem heldri dömurnar voru sem búnar voru að gera allt innan samtakanna eins og Hilla útskýrði fyrir mér stolt á svip og starfaði hún þar í mörg ár. Það fór ekki fram hjá neinum þegar Hilla var á staðnum, alltaf stuð í kringum hana og engin lognmolla. Það voru líka skýrar og ákveðnar en samt vinsamlegar ábendingar sem hún gaf og aldrei særði hún nokkurn mann.

POWERtalk samtökin á Íslandi sjá á bak öflugum félaga sem setti svip sinn á starfið um langt árabil. Við í samtökunum þökkum henni, hennar mikilvæga framlag. Blessuð sé minning Hildar Jónsdóttur.

Lilja Guðný Friðvinsdóttir,

landsforseti POWERtalk International á Íslandi.