Eyjar Fasteignaverð í Eyjum hefur hækkað um 60% á fimm árum.
Eyjar Fasteignaverð í Eyjum hefur hækkað um 60% á fimm árum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Af átta stórum bæjum á landsbyggðinni hefur fasteignaverð hækkað langmest í Vestmannaeyjum á síðustu fimm árum. Frá seinni hluta árs 2008 fram til fjórða ársfjórðungs 2013 hækkaði verðið um rúmlega 60% í Eyjum og þar á eftir á Ísafirði um u.þ.b. 35%.

Af átta stórum bæjum á landsbyggðinni hefur fasteignaverð hækkað langmest í Vestmannaeyjum á síðustu fimm árum. Frá seinni hluta árs 2008 fram til fjórða ársfjórðungs 2013 hækkaði verðið um rúmlega 60% í Eyjum og þar á eftir á Ísafirði um u.þ.b. 35%.

Á sama tíma hefur verð lækkað á tveimur stöðum, í Árborg um 10,2% og í Reykjanesbæ um 4,7%. Það er því um 70% munur á breytingu fasteignaverðs í þessum bæjum á fimm ára tímabili. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Hagfræðideildar Landsbankans.

Akureyri eins og höfuðborgarsvæðið

Á miðvikudaginn birti Hagfræðideildin aðra úttekt þar sem fram kom að fasteignaverð á Akureyri hefði hækkað með áþekkum hætti og á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár.

Hagfræðideild Landsbankans hefur áður bent á það að svo virðist sem fasteignaverð hafi hækkað meira en ella í þeim bæjum sem tengjast sjávarútvegi hvað mest. Kaupmáttur, atvinnu- og tekjustig hafi jafnan mikil áhrif á fasteignaverð.

Framboð skipti líka máli. Árborg og Reykjanesbær voru meðal þeirra bæja þar sem mest hafi verið byggt fyrir hrun. „Þessar niðurstöður benda til þess að mikið framboð íbúða hafi haldið aftur af hækkunum fasteignaverðs. Þá má líka ætla að báðir þessir þættir skipti máli í Vestmannaeyjum, en þar við kann að bætast að byggingarland sé meira takmarkað í Vestmannaeyjum. Atvinnu- og tekjustig er gott og skortur hefur verið á húsnæði. Niðurstaðan er því miklar verðhækkanir,“ segir Hagfræðideild Landsbankans.

helgivifill@mbl.is