[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson baldura@mbl.is Nýjum og auðum íbúðum í Reykjanesbæ er farið að fækka verulega, m.a. vegna aðflutnings fólks frá höfuðborgarsvæðinu.

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Nýjum og auðum íbúðum í Reykjanesbæ er farið að fækka verulega, m.a. vegna aðflutnings fólks frá höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuhorfur eru að glæðast og um áramótin má ætla að atvinnuleysi á svæðinu verði farið að nálgast landsmeðaltalið.

Að sögn Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, á hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu þátt í þessari þróun. Velta á leigumarkaði þar er einnig að aukast, eins og sýnt er á grafi hér á síðunni. „Hækkun fasteignaverðs hefur þau áhrif að fólk leitar hingað og það er vinnandi fólk sem sækir í nýbyggingarsvæðin. Það sem af er ári hefur íbúafjölgunin fyrst og fremst orðið í nýju hverfunum í Innri-Njarðvík. Það eru komnir yfir 14.650 íbúar í Reykjanesbæ. Fyrsta maí sl. vantaði tvo íbúa upp á að við værum búin að fylla þann fjölda sem við áætluðum að yrði í lok árs 2014. Það er mjög mikil fjölgun. Sú fjölgun á sér nær öll stað í nýju hverfunum í Innri-Njarðvík. Þarna er um að ræða autt húsnæði sem fólk hefur flutt inn í,“ segir Árni en samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands bjuggu 14.527 í Reykjanesbæ 1. janúar sl.

Vinna á höfuðborgarsvæðinu

Árni segir líka mörg dæmi um að ungt fólk kaupi gömul hús í eldri hverfum, geri þau upp og flytji inn.

„Þar eru á ferð einstaklingar, eða fjölskyldur, sem hafa störf á höfuðborgarsvæðinu, en sjá færi á að kaupa hér húsnæði á hentugum tíma og setja upp sitt heimili í barnvænu umhverfi, jafnvel þótt önnur fyrirvinnan sé gjarnan enn að störfum á höfuðborgarsvæðinu. Það er þróunin. Fjöldi íbúa í Ásbrú er hins vegar nær 2.000 og hefur verið svipaður síðustu tvö ár. Þar af er langstærsti hlutinn námsmenn. Þar eru nú lausar um eitt þúsund íbúðir en þær eru ekki allar tilbúnar. Það þarf að taka út amerískt rafmagn, eins og sagt er, og gera smávægilegar lagfæringar. Þær munu því koma hægar inn. Þetta er hugsað sem hverfi fyrir námsmenn. Þá hefur svæðið verið opnað fyrir ferðaþjónustuna. Fjögur fyrirtæki hafa keypt blokkir og breytt þeim í gistirými.“

Rúm fyrir þúsund íbúa

Árni áætlar aðspurður að enn sé rúm fyrir um þúsund íbúa í Reykjanesbæ, án þess að til þurfi að koma nýbyggingar. „Innviðirnir eru enn mjög sterkir og það er vel hægt að taka við hátt í þúsund íbúum í Innri-Njarðvík.“

Að sögn Vinnumálastofnunar voru 788 manns atvinnulausir á landinu í mars og atvinnuleysið 7,5%. Landsmeðaltalið, samkvæmt sömu skilgreiningu, var þá 4,5%.

Árni áætlar aðspurður að um næstu áramót verði atvinnuleysi í Reykjanesbæ á svipuðu róli og landsmeðaltalið. Margt sé í pípunum. Til dæmis sé áætlað að stækkun Keflavíkurflugvallar muni skapa 100 störf. Kísilver sé að fara af stað með framkvæmdir, gagnaver Verne sé að stækka og Advania að byggja nýtt gagnaver á Fitjum. Þá muni t.d. þörungaverksmiðja Algalífs á Ásbrú og Stolt Seafarm uppskera á næstu mánuðum.

Veltan að aukast
» Samkvæmt Fasteignaskrá var velta kaupsamninga vegna fasteigna á Suðurnesjum 8,07 milljarðar í fyrra, 7,44 ma. 2012, 4,53 ma. 2011 og 6,52 ma. árið 2010 og 6,46 ma. 2009, á verðlagi hvers árs.