Oddsskarð Svæðið þykir eitt besta skíðasvæði landsins. Fjallið myndar skál þar sem eru margar skemmtilegar skíðaleiðir. Aðstæður eru þannig að sólbráð verður ekki of mikil á sólríkum dögum. Unnið er að hugmyndum um framtíðarskipan svæðisins með tilliti til skíðaiðkunar og ferðaþjónustu.
Oddsskarð Svæðið þykir eitt besta skíðasvæði landsins. Fjallið myndar skál þar sem eru margar skemmtilegar skíðaleiðir. Aðstæður eru þannig að sólbráð verður ekki of mikil á sólríkum dögum. Unnið er að hugmyndum um framtíðarskipan svæðisins með tilliti til skíðaiðkunar og ferðaþjónustu. — Ljósmyndir/Fjarðabyggð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Óvenjumikill snjór er í Oddsskarði á skíðasvæði Skíðamiðstöðvar Austurlands. Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að svæðið verði opið um helgar fram eftir júní.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Óvenjumikill snjór er í Oddsskarði á skíðasvæði Skíðamiðstöðvar Austurlands. Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að svæðið verði opið um helgar fram eftir júní. Dagfinnur Ómarsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, taldi að svæðið gæti orðið opið út júní og jafnvel lengur. Hann man ekki til þess að svæðið hafi áður verið opið svo lengi.

„Snjódýptin nú er sú mesta sem við munum eftir,“ sagði Dagfinnur. Snjódýptin er um þremur metrum meiri en venjulega á þessum árstíma. Hann sagði að menn myndu nokkuð glöggt eftir snjóalögum í Oddsskarði allt aftur til ársins 1958 og snjórinn hefði líklega aldrei verið meiri en hann væri nú. Skíðasvæðið teygir sig frá 500 metrum og upp í 840 metra yfir sjávarmáli. Snjódýptin efst er nú 6-7 metrar en 4-5 metrar neðst.

Erfiðlega hefur gengið að halda skíðasvæðinu opnu í vetur vegna veðurs. Rekstur Skíðamiðstöðvarinnar hefur snúist um að halda svæðinu opnu. Á þremur vikum í vetur þurfti t.d. að ryðja burt um 70 þúsund rúmmetrum af snjó.

Opið verður um helgar

Opið verður um helgar, föstudag til sunnudags svo lengi sem opið verður í sumar. Aðsóknin hefur verið ágæt. Nú í maí hafa gjarnan komið 150-200 manns á dag á skíði. Sumir koma langt að, eins og t.d. frá Hornafirði.

Stefnt er að því að halda fjallaskíðahátíð um sjómannadagshelgina, fyrstu helgina í júní. Þá er von á gestum af höfuðborgarsvæðinu og víðar að, að sögn Dagfinns. Sjö starfsmenn vinna á skíðasvæðinu þegar það er opið en fastir starfsmenn allt árið eru tveir.

Undirbúningshópur fer nú yfir áform um frekari uppbyggingu á skíðasvæðinu. Von er á nýjum snjótroðara í janúar á næsta ári. „Það er allt á uppleið í olíubænum Fjarðabyggð,“ sagði Dagfinnur.