Baldur Arnarson baldura@mbl.is Frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Icelandair varð að lögum í gær. Samningsaðilar fá frest til 1.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Icelandair varð að lögum í gær.

Samningsaðilar fá frest til 1. júní og takist ekki að semja skal gerðardómur ákveða kaup og kjör fyrir 1. júlí. Eru þetta breytingar frá upphaflegri gerð frumvarpsins, þá var miðað við 15. júlí og 15. september.

Hagsmunaaðilar komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd í gær.

Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, segir þau sjónarmið hafa komið fram á fundinum að samningstíminn væri of langur.

Fremur bæri að þrýsta á deiluaðila að koma saman. Það væri báðum aðilum í hag að leysa deiluna sem fyrst. „Þetta sjónarmið kom m.a. fram hjá ríkissáttasemjara,“ segir Höskuldur sem segir Icelandair einnig hafa nefnt slík sjónarmið.

Hann segir lögin ekki hafa fordæmisgildi fyrir aðrar stéttir, þar með talið flugfreyjur. Meta verði hvert tilvik út af fyrir sig.

Varin réttindi í stjórnarskrá

Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA, segir flugmenn mjög ósátta.

„Það hljóta allir launþegar á Íslandi að telja á sér brotið þegar sett eru lög á löglega boðaðar verkfallsaðgerðir. Þau réttindi eru varin í íslenskri stjórnarskrá,“ segir Hafsteinn sem telur Icelandair hafa fengið það fram að samningstími fram að gerðardómi var styttur.

„Við teljum ekki miklar líkur á samningi, enda hefur það ekki tekist síðan í október að semja.“

Hafsteinn telur að hallað hafi á FÍA í umræðum um launakröfur flugmanna hjá Icelandair.

„Þegar Samtök atvinnulífsins og aðrir aðilar fara að ræða launakjör okkar á þann veg sem var gert virðist sem menn hafi dapran málstað að verja. Ég verð að játa það. Það eina sem við sögðum er að hafna þeirri leið sem SA og ASÍ fara, enda erum við ekki aðilar að ASÍ og höfum aldrei verið. Við vildum gera lengri samning, þá væntanlega með hærri prósentutölum,“ segir Hafsteinn og bendir á að flugmenn vinni undir miklu álagi, allan ársins hring.

Alls voru 67 flug felld niður hjá Icelandair vegna verkfallsins. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir ekki hægt að meta kostnaðinn vegna þess á þessu stigi.

„Það er auðvitað von mín að það verði ekki langtímaáhrif af þessu. Tíminn verður að leiða það í ljós.“

– Hvað með flugfreyjurnar? Þær boða yfirvinnubann 18. maí og verkfall 27. maí.

„Við erum að vinna í samningum við þær. Það er von mín að við náum að ljúka því. Það er verkefni sem við þurfum að klára. Við höfum ákveðinn tíma í það,“ segir Björgólfur.

  • Enda erum við ekki aðilar að ASÍ og höfum aldrei verið. Hafsteinn Pálsson