Áskorun „Er það álit flestra sem reynt hafa að fyrstu fimmtán sundtökin séu erfiðust en eftir það er líkaminn búinn að jafna sig og byrjaður að aðlagast kuldanum,“ segir Ragnheiður.
Áskorun „Er það álit flestra sem reynt hafa að fyrstu fimmtán sundtökin séu erfiðust en eftir það er líkaminn búinn að jafna sig og byrjaður að aðlagast kuldanum,“ segir Ragnheiður. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Ekki þarf að leita svo langt aftur til að finna tíma þegar sjósund og sjóböð voru álitin iðja furðulegra sérvitringa.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ekki þarf að leita svo langt aftur til að finna tíma þegar sjósund og sjóböð voru álitin iðja furðulegra sérvitringa. Margt hefur breyst síðan þá og í dag er svo komið að fjöldi Íslendinga stundar það reglulega að taka sundsprett í köldum sjónum.

Ragnheiður Valgarðsdóttir er formaður Sjósunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur og segir hún ekkert lát virðast ætla að verða á vinsældum þessarar iðju. „Ekki aðeins fjölgar í hópnum ár frá ári heldur er fjölbreytnin orðin mjög mikil og fólk á öllum aldri sem stundar sjósund og sjóböð reglulega.“

Aðstaðan breytti miklu

Aðspurð hvað geti helst skýrt vinsældir sjósunds- og sjóbaða nefnir Ragnheiður fyrst bætta aðstöðu í Nauthólsvík. „Á sínum tíma var ráðist í töluverðar framkvæmdir á svæðinu, m.a. komið fyrir búningsklefum heitum potti og nýlega var bætt við gufubaði. Stutt er fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins að fara niður í Nauthólsvík, botninn er þar sléttur og öruggur. Þar hittist fólk í dag til að fara í sjóinn og á svo skemmtilega stund saman í pottinum eða gufunni.“

Þá hafa fjölmiðlar sýnt sportinu mikinn áhuga, flutt fréttir af árlegum sjósundsferðum t.d. yfir Fossvoginn, og út í Viðey. Síðan er ekki ólíklegt að samfélagsmiðlarnir hafi hjálpað til við að breiða út jákvæða reynslu fólks af sundsprettinum. „Að svamla í köldum sjónum er eitthvað sem margir eru spenntir fyrir að reyna, þó að ekki væri nema einu sinni, og gaman að geta sett af því myndir og frásögn á Facebook. Þetta eru líka skemmtilegar myndir að deila, fólk kemur upp úr sjónum brosandi og frísklegt, og stolt af sjálfu sér enda er það ákveðin hetjudáð að synda í sjónum í fyrsta sinn.“

Hægt er að stunda sjósund og sjóböð árið um kring en sumarið er þó vinsælasti tíminn til þessarar iðju, enda bæði hiti sjávar og lofts þægilegri. Sjósunds- og sjóbaðsfélagið er með skipulagða dagskrá allt sumarið. „Eins og síðustu tvö sumur verður tekið sérstaklega vel á móti nýliðum í Nauthólsvík alla miðvikudaga kl. 17.30. Þar verða vanir sjósundsmenn sem leiða fólk í gegnum fyrsta skiptið í sjónum og hjálpa því að eiga gefandi og ánægjulega upplifun,“ segir Ragnheiður.

Fyrstu skrefin erfiðust

Hún bætir við að gott sé að byrja sjósund og sjóböð undir tryggri leiðsögn. „Sumir spreyta sig á þessu einir og óstuddir og hlaupa þá út í sjóinn og svo strax til baka upp á land, en þannig eru þeir ekki að upplifa allt það sem sjórinn hefur upp á að bjóða.“

Segir Ragnheiður að það geti kallað á mikinn viljastyrk að stíga fyrstu skrefin út í kaldan sjóinn. „Þegar vatnið er komið upp að nafla þarf svo að byrja að taka fyrstu sundtökin. Er það álit flestra sem reynt hafa að fyrstu fimmtán sundtökin séu erfiðust en eftir það er líkaminn búinn að jafna sig og byrjaður að aðlagast kuldanum,“ útskýrir hún og bæti við að hver og einn ráði því sjálfur hvort honum nægi að taka einfaldlega hressandi bað í sjónum eða vilji frekar synda. „Fara þarf rólega af stað og alls ekki stökkva beint út í sjóinn því þá geta áhrif kælingarinnar verið of kröftug fyrir líkamann.“

Hún segir ekki þurfa að óttast stungur frá marglyttum eða ígulkerjum og að hákarlarnir í kringum Ísland séu flestir tannlausir og með engan áhuga á sundfólki. „Selir eru heldur ekki að ógna sjósundsfólki og hafa jafnvel stundum slegist í för með okkur á lengri sundferðum.“

Þarf samt að sýna hæfilega aðgát og t.d. forðast að stunda sjósund þar sem sterkir hafstraumar og flóð eða fjara kunna að færa sundfólk frá landi. Segir Ragnheiður jafnframt að fólk sem glímir við hjartavandamál eða háþrýsting ætti að ráðfæra sig við lækni áður en gerð er atlaga að sjósundinu.

Sennandi ferðir framundan

„Í sundferðum félagsins gætum við vandlega að örygginu og erum með björgunarsveitarmenn með í för á léttbátum og kajökum, og viðbúnað í landi ef svo ólíklega vildi til að eitthvað kæmi upp á. Af sundferðum sumarsins má m.a. nefna nýja sundleið yfir Skerjafjörð, að vanda er synt út í Viðey föstudaginn fyrir Menningarnótt og lengsta sund sumarsins verður Bessastaðasundið sem nær yfir 4,5 kílómetra leið. Að auki verða farnar hópferðir út á land, m.a. í sjósundsferð til Þorlákshafnar og að Kleifarvatni þar sem synt er í ferskvatni.“

Gott fyrir líkama og sál

Ragnheiður segir það laða marga að sjósundi og sjóböðum hvað þessi iðja getur haft jákvæð áhrif á heilsuna. Talar hún um að margir finni fyrir að vöðvabólga batni, ónæmiskerfið styrkist og lundin léttist. „Það virðist að það að fara ofan í kaldan sjóinn um skeið og svo ofan í heitan pott komi blóðrásinni mjög vel af stað. Um leið er heilinn að senda alls kyns kröftug hormón um líkamann og endorfínið flæðir um kroppinn eftir sjósundið.“

Sjálfri þykir Ragnheiði sjósundið ekki bara heilsubætandi heldur hin besta skemmtun og bjóði upp á mikla frelsistilfinningu og sterka tengingu við náttúruna. „Ég líki þessu stundum við muninn á að hlaupa á hlaupabretti inni í líkamsræktarstöð og hlaupa utandyra. Munurinn er svipaður á því að synda í sundlaug og synda í sjónum.“